spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaValskonur við stýrið í Njarðvík

Valskonur við stýrið í Njarðvík

Valur tók tvö góð stig í Ljónagryfjunni í kvöld þegar liðið lagði Njarðvík 69-80 í Subwaydeild kvenna. Valskonur tóku snemma stjórnvölin í leiknum og leiddu allt til leiksloka. Njarðvíkingar gerðu nokkrar heiðarlegar tilraunir til þess að jafna og komast yfir en Valskonur kváðu allar þær tilraunir í kútinn jafnóðum. 

Kiana Johnson fór fyrir Val í kvöld með 30 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar og Ásta Júlía Grímsdóttir var einnig að bjóða upp á flottan leik með 18 stig og 12 fráköst. Hjá Njarðvík var Aliyah Collier allt í öllu með 36 stig, 19 fráköst og 6 stolna bolta. 

Lavinia Da Silva var mætt aftur til starfa eftir meiðsli en liðin fóru sér fremur hægt í fyrsta leikhluta þar sem gestirnir leiddu 13-16 eftir fyrstu tíu mínúturnar. Undir lok fyrsta leikhluta var Elín Sóley Hrafnkelsdóttir studd af velli og kom ekki meira við sögu í leiknum – vonum að þetta sé ekki alvarlegt og að hún verði komin á parketið sem fyrst.

Eftir tæplega 16 mínútna leik fann Kamilla Sól loks fyrsta þristinn fyrir Njarðvík þegar hún minnkaði muninn í 27-31 en Valskonur voru ívið betri í fyrri hálfleik og leiddu því 33-37 í hálfleik. Aliyah var með 17 stig og 7 fráköst hjá Njarðvík í leikhléi en Kiana 13 í liði Vals. 

Bríet Sif kom Njarðvík yfir snemma í þriðja með þrist 42-41 og var það í fyrsta sinn síðan á fyrstu andardráttum leiksins sem Njarðvík var yfir. Valskonur héldu þó forystunni og leiddu 50-56 fyrir fjórða leikhluta. 

Lengi var von á einum og Raquel Laneiro setti sinn fyrsta þrist fyrir Njarðvík eftir 32 mínútna leik og heimakonur komnar í 57-56. Rétt eins og í fyrri tilraunum heimakvenna við að ná forystunni var þessu svarað með afli frá Hlíðarenda og Valskonur skelltu í 5-0 áhlaup. Sama hvað Njarðvíkingar reyndu þá var Valsvörnin þétt, Njarðvíkingar einsleitir í sóknaraðgerðum sínum og með hverri mínútunni sem leið í fjórða sigu Valsarar lengra frá og kláruðu leikinn 69-80.

Besti leikmaður leiksins: Kiana Johnsson… útkall (e. Shoutout) fær Ásta Júlía Grímsdóttir einnig fyrir flotta frammistöðu. 

Myndasafn

Tölfræði leiks

Gangur leiks

6-6, 11-13, 13-16

17-23, 23-29, 33-37

38-41, 42-49, 50-56

59-66, 69-80

Fréttir
- Auglýsing -