spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaValskonur tryggðu sig í undanúrslitin

Valskonur tryggðu sig í undanúrslitin

Valur lagði Þór Akureyri í fjórða leik átta liða úrslita Bónus deildar kvenna, 75-70.

Með sigrinum tryggði Valur sig áfram í undanúrslitin, þar sem þær munu mæta Keflavík eða Haukum.

Heimakonur í Val hófu leikinn af miklum krafti og voru 6 stigum yfir að fyrsta fjórðung loknum, 22-16. Þær missa þó tökin á leiknum í öðrum leikhlutanum og hægt og rólega vinnur Þór niður muninn undir lok hálfleiksins og eru það þær sem leiða þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-38.

Í upphafi seinni hálfleiksins lætur Þór kné fylgja kviði. Fara mest með forystu sína í 10 stig í þriðja fjórðungnum, en munurinn fyrir lokaleikhlutann er 56-61. Í þeim fjórða vinnur Valur forskotið niður með miklum glæsibrag, leiða síðustu mínútur leiksins og vinna að lokum með 5 stigum, 75-70.

Jiselle Thomas var best í liði Vals í kvöld með 25 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Henni næst var Alyssa Cerino með 18 stig og 12 fráköst.

Fyrir Þór var Madison Sutton atkvæðamest með 26 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar. Þá bætti Hanna Gróa Halldórsdóttir við 8 stigum, 3 fráköstum og 3 stoðsendingum.

Þór Akureyri eru því komnar í snemmbúið sumarfrí á meðan Valur, sem enduðu í 5. sæti deildarkeppninnar eru komnar áfram. Þær þurfa þó að bíða úrslita í einvígi Grindavíkur og Hauka til þess að vita hver mótherji þeirra í undanúrslitunum verður. Vinni Haukar oddaleik sinn gegn Grindavík verða það Haukar sem þær mæta, en fari svo að Grindavík vinni mæta þær Íslandsmeisturum Keflavíkur.

Tölfræði leiks

Viðtöl væntanleg

Fréttir
- Auglýsing -