Fyrir leik
Hér í kvöld mættust lið Vals og Skallagríms í 1.umferð Dominosdeildar kvenna árið 2018-2019. Mikil spenna ríkti í húsinu að byrja nýtt tímabil.
Gangur leiks
Leikurinn fór hægt af stað og voru bæði lið fremur köld í stigaskori en Bergþóra Holton braut ísinn með glæsilegri 3ja stiga körfu til að koma Vals liðinu yfir. Fyrsti leikhluti var alveg einstaklega þurr og leiðinlegur en ljóst var að bæða lið voru mikið að þreyfa fyrir sér og leita að veikleikum hjá hvor öðru. Borgnesingar voru þó öflugri og tóku flott áhlaup undir lok leikhlutans og leiddu að loka leikhlutans 9-17. Eina sem stóð uppúr í þessum leikhluta var það að Vals liðið var mikið að tapa boltanum og voru samanlagt með 8 tapaða bolta þegar fyrsta leikhluta lauk.
Stúlkurnar úr Skallagrím settu fyrstu körfu leikhlutans og var hún þriggja stiga en Valsarar með Brooke Johnson í bílstjórasætinu ákváðu að setja þrjá þrista í röð í staðinn og koma sér inní leikinn, 18-20 var staðan um miðbik annars leikhluta. Liðin skiptust á að skora og var mikið jafnræði með þeim, staðan í hálfleik 29-33 gestunum úr Borgarnesi í vil.
Valskonur komu öflugar út í seinni hálfleikinn og voru ekki lengi að jafna leikinn. Valsarar héldu áfram að gefa í og um miðbik þriðja leikhluta voru Valsarar komnar 8 stigum yfir, 46-38. Borgnesingar minnkuðu það strax niður í 4 stig en sterkt áhlaup Valsara kom þeim aftur 12 stigum yfir, staðan að lok 3.leikhluta 54-42 Völsurum í vil. Skelfilegur leikhluti fyrir gestina!
Hér var allt undir og þarna sáum við aftur Skallagríms liðið eins og þær spiluðu fyrsta leikhlutann, settu niður þrist og voru að spila hörku vörn. En það var svo ekki mikið meir en bara það þar sem Valsarar settu í 5.gír og keyrðu yfir þreytta Borgnesinga. Lokatölur 71-51
Lykillinn
Brooke Johnson sýndi glæsilegan leik hérna í kvöld. Skoraði 20 stig, tók 16 fráköst og var með 50% skotnýtingu, stýrði leik heimamanna eins og herforingi. Ég verð að taka fram líka hversu flottan leik Guðbjörg Sverrisdóttir átti, geggjaður karakter sem spilaði vel hérna í kvöld.
Kjarninn
Bæði lið voru að hlaupa þennan leik á 6 stelpum og því við hæfi að segja að kjarninn hjá báðum liðum var lítill en þéttur. Valskjarninn var aðeins sterkari og gat Darri róterað aðeins meira heldur en Ari sem gerði heilmikið. Valskonur náðu að dreifa sínu stigaskori mikið og fékk Darri mikið púkk frá öllum stelpunum sem spiluðu leikinn. Í liði Skallagríms voru það Bryesha og Shequila sem drógu vagninn en vantaði aðeins meira framlag frá liðsfélögum sínum. Maður sá samt að Maja Michalska í liða Skallagríms er hörkuspilari sem þarf aðeins meiri tíma til að venjast þessu en þegar hún dettur í gang þá er voðinn vís fyrir önnur lið í deildinni.
Samantektin
Valskonur voru öflugri on the long run í dag, blaðran sprakk hjá Skallagrím í hálfleik og sáu þær aldrei til sólar í seinni þrátt fyrir flottan fyrri hálfleik. Sigrún Sjöfn vill gleyma þessum leik í dag sem allra fyrst en þessi frábæri körfuboltamaður átti ekki sinn besta leik í kvöld. Bæði lið verða þrusu flott í vetur og erfið viðureignar það er ljóst!
Umfjöllun, viðtöl / Axel Örn
Myndir / Torfi Magnússon
Viðtöl: