23:10
{mosimage}
(Petrúnella Skúladóttir brýst í gegnum hripleka Valsvörnina)
Valur fékk rækilegt kjaftshögg í Röstinni í kvöld þegar Grindavík valtaði yfir gesti sína 88-47 í Iceland Express deild kvenna. Grindvíkingar afgreiddu leikinn strax í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 28-9 gulum í vil. Tiffany Roberson átti góðan dag í liði Grindavíkur en hún setti 22 stig og tók 19 fráköst. Í liði Vals var Hafdís Helgadóttir með 16 stig en Valur lék án Signýjar Hermannsdóttur sem er frá sökum meiðsla í mjöðm. Grindvíkingar söknuðu svo Írisar Sverrisdóttur sem stríðir við meiðsli í baki.
Fyrstu mínútur leiksins var jafnt á með liðunum en ekki var lengi að bíða þess að heimakonur næðu undirtökunum. Valskonur reyndu hvað þær gátu að hemja liðsmenn Grindavíkur en hvorki gekk né rak, hvorki svæðisvörn þeirra né maður á mann vörnin. Svo fór að Grindavík afgreiddi leikinn nánast í 1. leikhluta og staðan 28-9 að honum loknum.
Þegar blásið var til hálfleiks var staðan orðin 44-25 Grindavík í vil og ekkert í leik Valskvenna sem benti til þess að þær næðu að berja sig aftur inn í leikinn. Valur varð fyrir nokkrum missi þegar Lovísa Guðmundsdóttir varð frá að víkja sökum meiðsla á öðrum fæti. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 66-37 Grindavík í vil og sigurinn gulltryggður. Lokatölur leiksins voru svo eins og áður greinir 88-47 Grindavík í vil.
{mosimage}
(Cecilia Larsson)
Gular lönduðu sínum þriðja deildarsigri í röð í kvöld og eru á toppi deildarinnar ásamt Haukum en bæði lið hafa sex stig en Keflavík er í 3. sæti og á leik til góða.
Tiffany Roberson gerði 22 stig og tók 19 fráköst hjá Grindavík og næst henni var Joanna Skiba með 18 stig og 10 stoðsendingar. Þá gerði Petrúnella Skúladóttir 9 stig og tók 4 fráköst. Hjá Val var Hafdís Helgadóttir með 16 stig og Kristjana Magnúsdóttir barðist vel með 10 stig og 11 fráköst.
Næsti leikur Vals er gegn Haukum á þriðjudag og á miðvikudag mætast Keflavík og Grindavík í grannaslag í Sláturhúsinu í Keflavík.
{mosimage}
(Tiffany Roberson)
{mosimage}
(Hafdís Helgadóttir)
{mosimage}
(Joanna Skiba)
{mosimage}
(Þórunn Bjarnadóttir)
{mosimage}
(Ingibjörg Jakobsdóttir)