Kvennalið Hamars mátti sín lítils gegn úrvalsdeildarliði Vals í Powerade-bikarnum í körfubolta en nokkuð stórt tap skyggði ekki á gleðina og baráttuna hjá heimamönnum sem voru á köflum mjög óheppnar með skot sín. Valsliðið mætti mjög vel stemmt til leiks og kláraði leikinn í fyrri hálfleik vel stutt af fyrirmyndar fylgdarsveit. Kannski of stórt tap gegn úrvalsdeildarliði í Hveragerði í kvöld, 39-86 en engu að síður sanngjarnt og Valskonur komnar í bikarúrslitin í fyrsta skipti í þeirra sögu.
Valur var fremri strax frá byrjun, Ágúst Björgvinsson þjálfari gestanna, greinilega undirbúið sitt lið í fulla baráttu strax frá uppkasti. Svo fór að hann gat hvílt allt byrjunarlið nánast allan síðari hálfleik og leyft öllum að spila. Ekki þurfti garðyrkjulýsingu til að sjá að hjá Hvergerðingum er mikill efniviður en þrátt fyrir það og ágætis baráttu margra leikmanna, sérstaklega í fyrri hálfleik dugði einfaldlega ekki til.
Gestirnir komust í 0-7 og 5-15 þar sem ekki gekk vel í sókninni hjá Hamri og Valskonur stálu mikið af boltum. Að loknum 1. leikhluta var staðan 7-20 og í 2. leikhluta varð munurinn mestur 26 stig, 10-36, en staðan í hálfleik var 20-44. Munurinn hélt áfram að aukast í 3. leikhluta og að lokum skildu 47 stig liðin að, 39-86.
Íris Ásgeirsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 16 stig, Marín Laufey Davíðsdóttir og Regína Ösp Guðmundsdóttir skoruðu 5, Dagný Lísa Davíðsdóttir 4, Helga Vala Ingvarsdóttir 3 og þær Rannveig Reynisdóttir, Jenný Harðardóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir skoruðu allar 2 stig en Álfhildur var með 9 fráköst að auki.
Þrír fyrrum leikmenn Hamars voru stigahæstir í liði Vals; Guðbjörg Sverrisdóttir með 16 stig, Jaleesa Butler með 15 og Kristrún Sigurjónsdóttir með 13 stig.
Á að giska var um 300 til 350 manns á leiknum, formaðurinn góðkunni, Lárus Ingi grillaði ofan í gesti og nokkuð var gert til að hafa umgjörðina góða. Heimastúlkur vilja eflaust grafa þennan leik sem fyrst þar sem útileikur bíður í Borgarnesi og ekki má slaka á í baráttunni um að endurheimta sæti meðal þeirra bestu aftur. Valskonur geta í rólegheitum fylgst með viðureign Snæfells og Keflavíkur í hinum undanúrslitaleiknum og sjá hver andstæðingurinn verður í úrslitum Powerade bikarsins.
Mynd/ Sævar Logi Ólafsson
Umfjöllun/ Anton Tómasson