09:13
{mosimage}
(Þrír í brúnni!)
Íslandsmeistarar KR eru ófrýnilegir að sjá þessa dagana enda leikmannahópurinn þéttur og vel skipaður. KR-ingar tefla fram þremur landsliðsmönnum í ár. Þeim Fannari Ólafssyni, Helga Magnússyni og Brynjari Björnssyni. Þá eru þeir Joavan Zdravevski, Joshua Helm og Samir Shaptovic erlendu leikmenn liðsins og ekki má gleyma þeim Pálma Sigurgeirssyni, Skarphéðni Ingasyni og Darra Hilmarssyni. Eftir þessa upptalningu ætti engum að bregða þó KR yrði spáð Íslandsmeistaratitlinum í ár.
Það sem fólk hefur þó verið að koma auga á er að ekki er aðeins valinn maður í hverju rúmi í leikmannahópi liðsins heldur eru kallarnir í brúnni ekki af verri endanum og telur þjáflarateymið alls þrjá kappa.
Aðalþjálfari KR, Benedikt Guðmundsson, var með Finn Stefánsson sér til aðstoðar á síðustu leiktíð og nú í sumar bættist hinn sigursæli þjálfari Ágúst Björgvinsson í hópinn.
Venju samkvæmt eru þeir leikmenn sem ekki leika inni á vellinum hverju sinni á tréverkinu og tveir stólar ætlaðir undir þjálfara hvers liðs. Það verða því þrír stólar við varamannabekk KR í vetur nema ef ske kynni að einhver hinna þriggja þjálfara myndi sætta sig við að vera á tréverkinu.
Að öllu gamni slepptu gefur það auga leið að Íslandsmeistarar KR verða illir viðureignar í vetur og milli þessara þriggja þjálfara er ekki ólíklegt að upp úr suðupottinum komi lið sem verði í toppbaráttunni í öllum keppnum.