Körfknattleikslið Valencia á Spáni fer vel af stað á undirbúningstímabilinu á þessari leiktíð. Liðið hefur spilað 4 leiki það sem af er og sigrað 3 af þeim. Jón Arnór Stefánsson, sem samdi nýverið við félagið til þriggja mánaða, hóf leik með því um síðustu helgi en þá spilaði hann 20 mínútur í 73-71 sigri Valencia á ICL Manresa. Jón Arnór skoraði 4 stig í þeim leik og gaf 2 stoðsendingar.
Í kvöld spiluðu Valencia við Herbalife Gran Canaria í Burgos mótinu og sigruðu 86-70. Okkar maður skoraði ekkert í þeim leik en tók 3 fráköst auk þess að gefa eina stoðsendingu á 16 mínútum.
Valencia er komið í úrslit á Burgos mótinu og mun mæta Bilbao Basket annað kvöld.
Leikjaniðurröðun í spænsku ACB deildinni er klár en Valencia mun mæta ACB og Euroleague meisturunum Real Madrid í fyrsta leik 10. eða 11. október.
Mynd: Jón Arnór í leik Valencia og Herbalife Gran Canaria (Valencia BC)