spot_img
HomeFréttirVæri ekki á þessum stað án góðra liðsfélaga og þjálfara

Væri ekki á þessum stað án góðra liðsfélaga og þjálfara

„Þetta leggst allt mjög vel í mig. Ég er orðin virkilega spennt fyrir því að fara út og prófa eitthvað nýtt,“ sagði Hildur Björg Kjartansdóttir sem í bili hefur sagt sitt síðasta í íslenska boltanum þar sem hún er á leið til Bandaríkjanna í háskólanám hjá UTPA háskólanum þar sem landsliðskonan María Ben Erlingsdóttir stundaði nám og lék með skólaliðinu Lady Broncs.
 
 
„Hún Maja var í UTPA í fjögur ár og er búin að gefa mér mörg góð ráð. Maja, Helena Sverrisdóttir og Ingi Þór hafa hjálpað mér mikið í þessu ferli og er ég þakklát fyrir alla þá hjálp sem ég hef fengið frá fólkinu í kringum mig,“ sagði Hildur og námslega ætlar hún ekkert að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur.
 
„Ég er búin að ákveða að læra efnafræði. Veit ekki nákvæmlega hvað mig langar að gera í framtíðinni en þetta verður góður grunnur fyrir allt mögulegt,“ sagði Hildur sem skilur sátt við Hólminn.
 
„Við áttum frábært tímabil í vetur. Það er mjög góð tilfinning að fara úr Hólminum með deildar- og Íslandsmeistaratitil að baki. Þessi fjögur tímabil með Snæfell í úrvalsdeild hafa undirbúið mig vel fyrir komandi átök og gefið mér mikla reynslu. Ég væri hins vegar ekki á þeim stað sem ég er í dag án góðra liðsfélaga og þjálfaranna Inga Þórs og Baldurs. Það verður skrítið að vera ekki í Hólminum næsta vetur og ég mun auðvitað sakna Snæfellsfjölskyldunnar mjög mikið.“
 
Það er ansi myndarlegt skarð höggvið í raðir Hólmara með brotthvarfi Hildar sem var í úrvalsliði Domino´s deildarinnar á lokahófi KKÍ en á tímabilinu með Snæfell var hún með 15,3 stig, 9,9 fráköst og 2 stoðsendingar að meðaltali í leik.
  
Fréttir
- Auglýsing -