Skot utan af velli geta gefið annað hvort tvö eða þrjú stig – eftir því hvaðan þau eru tekin. Öll skot eru hins vegar ekki jöfn að virði ef líkindi eru tekin með í jöfnuna. Til dæmis eru 34,6% líkur á því að þriggja stiga skot rati rétta leið í Subway deild karla. Það gefur okkur vænt virði upp á 1,038 stig fyrir hvert þriggja stiga skot sem tekið er.
Nýting lækkar eftir því sem lengra frá körfunni er skotið. Nýting við hringinn – eða í þriggja metra radíus frá honum – er 59,5% í Subwaydeild karla þegar þetta er skrifað. Nýting frá þriggja stiga línunni uppi á toppi eða frá vængjunum er 33,8%. Myndin hér að neðan sýnir okkur hvernig hún lækkar eftir því sem utar dregur.
Miðað við þessar upplýsingar er líkurnar á því að skot frá teignum fari niður 59,5%; 37,8% af miðfæri og 34,4% fyrir utan þriggja stiga línuna. Ef við færum þessi líkindi yfir á þau stig sem skottilraunirnar geta gefið okkur þá sjáum við að skot í teignum er 1,191 stigs virði (2 * 0,595) í Subwaydeild karla. Þriggja stiga skot í deildinni eru 1,031 stigs virði (3 * 0,344), en skot af miðfæri hefur vænt virði upp á 0,757 stig (2 * 0,378). Sjá nánara niðurbrot á myndinni hér að neðan.
Út frá skilvirkni færa skottilraunir frá miðsvæði liðum minnsta virðið og þess vegna eru aðeins 16,7% allra skottilrauna utan af velli teknar frá miðfæri. Teigurinn og þriggja stiga línan færa liðum mesta virðið eins og myndirnar hér að ofan sýna og því er vægi þeirra töluvert hærra skiptingunni milli svæða. Skot úr teig eru 39,5% af heild og þriggja stiga skot 43,8%. Þó eru til leikmenn í deildinni sem hitta mjög vel af miðfærinu en þar má helstan nefna Everage Richardson hjá Blikum. Vænt virði hans af miðfæri er slétt 1 stig þar sem nýtingin er 50%.
Liðin eru hins vegar misgóð af þessum færum og eru t.d. miðfæris-skot hjá KR 0,938 stiga virði sem er það hæsta í deildinni. Virðið er meira að segja 0,975 frá 5,4 metrum og út að þriggja stiga línunni hjá KR sem er einnig það hæsta í deildinni. Miðfæris-skot frá Grindavík eru hins vegar aðeins 0,602 stiga virði. Þór Þorlákshöfn fær mesta virðið í teignum eða 1,294 stig og Breiðablik fær mesta virðið úr þriggja stiga skotum eða 1,113 stig.
Töflu sem sýnir vænt virði skottilrauna hjá hverju liði fyrir sig eftir því hvaðan þær eru teknar er að finna hér að neðan. Græn gildi eru góð en þau rauðu slæm. Sókn sýnir tölfræði fyrir liðin sjálf en vörn sýnir hins vegar tölfræði andstæðinga þeirra.
Öll tölfræði í þessari grein er unnin úr upplýsingum frá InStat.