spot_img
HomeFréttirUtanlandsbolti: Jana Falsdóttir CSU Titans

Utanlandsbolti: Jana Falsdóttir CSU Titans

Næst í utanlandsboltanum tökum við tal á Jönu Falsdóttir sem lék síðasta tímabil með Njarðvík og skilaði sínu besta tímabili hingað til í úrvalsdeildinni. Jana hélt vestur í nám og það alla leið til Californíu, nánar tiltekið til borgar Englana (Los Angeles) Jana ætti svo sem ekki að vera í vandræðum með að ná tökum á lífinu í Bandaríkjunum þar sem foreldrar hennar Falur og Magga hafa ekki einungis búið erlendis (Charleston ef einhver hefur gleymt því) heldur fylgjast þau nokkuð náið með háskólaboltanum og öðrum bolta þar lendis.

Varla tími til að heyra í mömmu og pabba

“Lífið hérna úti í bandaríkjunum gengur mjög vel! Mér gengur mjög vel í skólanum og ástæðan fyrir því er sú að við fáum mjög mikla hjálp með allt sem tengist náminu. Á hverjum mánudegi fer ég á fund með námsráðgjafanum mínum þar sem við förum yfir heimanám vikunnar í hverjum áfanga og skoðum einkunnirnar mínar. Eftir þann fund fer ég á fund með mentorinum mínum, þar förum við yfir próf og stór verkefni og hvernig ég undirbý mig fyrir þau. Síðast en ekki síst fer ég í einkakennslu eftir æfingu á mánudögum þar sem ég er með sér kennara sem getur hjálpað mér með hluti sem ég á erfitt með að skilja.

Vikan hérna úti er mjög pökkuð. Ég þarf að vera mjög skipulögð og hugsa langt fram í tíman, til dæmis hvenær ég ætla að borða fyrir æfingu og svoleiðis. Í þessari viku gerðist það að ég hafði ekki hringt í mömmu og pabba í þrjá daga því ég hafði aldrei tíman í það, Auðvitað spilar tímamismunurinn mikið inn í.” sagði Jana um lífið á upphafsdögum sínum í skólanum.

Falur og Magga foreldrar Jönu ásamt Jönu og kærastanum

Jafn sterk og amma

Augljóslega nóg að gera en hvenær hefjast svo herlegheitin í körfuboltanum og hver er stóri munurinn á körfuboltanum ytra og svo hér heima?

“Fyrsti leikurinn okkar er núna á þriðjudaginn sem er þann 29. Október (á morgun) á móti Concordia University Irvine. Við spiluðum Æfingaleik í síðustu viku við San José State en það var lokað hús og engin gat mætt að horfa. En já það er stórmunur á körfuboltaæfingum t.d. hér heldur en heima. Við byrjum alla daga á styrktaræfingu sem er í klukkutíma og förum síðan beint á þriggja tíma körfuboltaæfingu. Ég hélt fyrst að við myndum kannski hlaupa minna á svona löngum æfingum og þjálfararnir myndu tala mikið en nei. Við gerum það sem við myndum gera á venjulegum æfingum nema bara í lengri tíma. Tíminn er svo sannarlega nýttur vel, þegar það er vatnspása þá hlaupum við fram og til baka og byrjum strax á næstu drillu.

Á styrktaræfingu erum við með Ipad sem við sjáum æfingarnar okkar og hversu þungt við tókum síðast og svoleiðis. Styrktarþjálfarinn getur fylgst með okkur í appinu svo það þýðir ekki að taka léttara en þú tókst á síðustu æfingu. Við lyftum þungt á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum en á þriðjudögum og fimmtudögum erum við oftast að teygja og gera core-workout. Afi minn segir alltaf við mig að ég þurfi að borða mikið svo ég verði stór og sterk eins og amma mín, ég held að það sé nokkuð öruggt að ég mun svo sannarlega ná að vera í það minnsta jafn sterk og amma eftir tímabilið.”

Brotlending á rafmagnshjóli

Jana er sem fyrr að hefja sinn háskólaferli og við spurjum hana um hvort eitthvað óvænt eða markvert hafi nú þegar komið fyrir hjá henni á fyrstu mánuðum?

“Já, því miður. Allir íþróttakrakkarnir eiga svona rafmagnshlaupahjól, það hjálpar helling við það að komast hraðar á milli staða hér á campus. Ég er ekki svo vön að nota svona rafmagnshlaupahjól en fyrstu það gekk allt vel fyrstu tvær vikurnar. Þangað til að einn daginn voru ég og herbergisfélaginn minn á leiðinni á æfingu og hún er aðeins á undan mér, við erum á gangstétt sem að mætir annari gangstétt og það kemur strákur á hjóli og svoleiðis svínar fyrir mig og ég reyni að beygja frá honum sem að tókst vel en ég endaði á að hjóla beinustu leið í grjótin sem að voru við hliðin á gangstéttinni. Núna er ég með ör á hökunni, öxlinni, maganum og lærinu.”

Californiu minningar

Saknar soðna Ýsu með kartöflum og smjöri

Það er kannski ekkert fyrir alla að halda út til háskólanáms erlendis og byrja þar að standa á eigin fótum eftir að hafa verið í hreiðri foreldra megnið af ævinni. Hvernig gengur að koma sér fyrir í Californiu?

“Ég er orðin “of vön” hitanum, mér finnst kalt úti þegar að það eru 20 gráður. Ég var með mikla heimþrá fyrstu tvær vikurnar en eftir það var ég alltof upptekin til þess að spá í því. Það sem ég á erfiðast með er að drekka vatn, ég er enn þá að venjast því að ég get ekki bara drukkið úr krana. Það sem ég sakna mest frá Íslandi fyrir utan fólkið, er klárlega að fá fisk frá ömmu og afa. Ég get ekki lýst því hvað mig langar mikið í soðna ýsu með kartöflum og smjöri.

Svo eru það stelpurnar sem að ég bý með og þær sem búa á campus. Þær heita Maddy, Layla, Maddie og Liyah. Ég bý með Maddy og Layla, þær eru nýliðar (Freshmen) eins og ég. Liyah og Maddie búa líka á campus en ekki með okkur því þær eru á þriðja ári “Sophmores” Við gerum nánast allt saman, förum saman út í búð, á Starbucks, í sund og á ströndina. Þær voru hérna á undan mér í sumar og þekktust allar en þær tóku svo vel á móti mér. Fyrstu vikurnar voru miklu skárri þökk sé þeim, þær sýndu mér ströndina og campus og kenndu mér allt sem ég þurfti að vita og svo framvegis.”

Væsir ekki um Jönu á Campus.

Kerru hundar

Talandi um ströndina og hið fræga Californiu lífs sem margir sjá í hyllingum og svo auðvitað Hollywood sem er ekki nema 30 mínútna akstur frá skólanum, við báðum Jönu um að lýsa þessu aðeins fyrir okkur.

“Fyrstu vikurnar fórum við á ströndina á hverjum laugardegi. Ég hef komið á Laguna Beach, Long Beach, Santa Monica Beach og Newport Beach. Mínar uppáhaldsstrendur eru Laguna og Santa Monica Beach. Þegar að ég fór fyrst á Laguna Beach þá leigðum við blakbolta fyrir daginn og spiluðum strandarblak, ég og Almar kærastinn minn á móti mömmu og pabba. Það fór eitt – eitt í leikjum þannig við vitum enn ekki hvor vann. Aftur á móti get ég sagt að það er ekki létt að spila blak í eldheitum sandi.

Hvað varðar Hollywood þá hef ég ekki enn skroppið þangað og ég er enn þá að bíða eftir því að hitta einhvern frægan. En ég get sagt það að ég hef séð hund í kerru oftar en fimm sinnum.”

Vinkonurnar á ströndinni

Þökku Jönu fyrir Californiu spjallið og gangi henni sem allra best.

Heimasíða CSU Fullerton Titans

Fréttir
- Auglýsing -