spot_img
HomeÚti í heimiUtanlandsbolti: Elías Bjarki - Augusta Jaguars

Utanlandsbolti: Elías Bjarki – Augusta Jaguars

Við ætlum að ríða á vaðið hér á Karfan.is og kanna stöðuna á okkar fólki sem leikur utan landssteina. Svo sem ekkert nýtt hér á ferðinni en við hefjum leik á Elías Bjarka Pálssyni sem leikur suður í Georgíuríki með háskólaliði Augusta Jaguars.

Það liggur því beint við að hlera kauða og spurja hvernig lífið gengur í Bandaríkjunum?

“Allir að slást fyrir sæti í liðinu”

“Það gengur bara mjög vel eins og er, gaman að vera í háskola með öllu þessu fólki sem er að gera svipaða hluti og ég. Gengur lika vel í Körfuboltanum þar sem það eru allir að berjast fyrir sínum stað í liðinu, en mér lýst bara vel á þetta eins og er. Fyrsti æfingaleikur er 30 október á móti stórliði Clemson. Þeir eru gríðalega sterkir með góða leikmenn í öllum stöðum, en við mætum klárir í þann slag. Fyrsti alvöru leikur á tímabilinu í deildinni er ekki fyrr en 18. desember á móti USC Beaufort. “

Breytingin frá því að æfa í Ljónagryfjunni hér á Íslandi og fara svo í vöggu körfuboltans í Ameríku hlýtur að vera gríðarleg.

“Það eru rosalegar breytingar frá að vera á æfingu með Njarðvik þar sem hlutirnir eru rólegri og eldri leikmenn sem þurfa oftar hvíld en aðrir. Hér í Augusta er ekkert kjaftæði! Maður þarf að mæta á allar æfingar með það hugarfar að vera með læti og vera með allt á hreinu því. Ef maður er ekki með eithvað sem búið er að fara yfir þá fær maður netta hárþurrku frá þjálfaranum og fylgja nokkur línuhlaup í kaupbæti. Það er mikil ákefð á æfingunum hér og annar “standard” sem þjálfarinn setur frá fyrsta degi. Öðruvísi með skiptingar á æfingum þar sem allir vilja vera inná alltaf og eru að berjast fyrir sínum mínútum.”

En þetta er ekki alltaf dans á rósum. Í Georgíu fylki fara iðulega hvirfilbylir yfir á ákveðnum tíma árs og Elías fékk að finna fyrir því á dögunum.

Hvirfilbylur sendi Elías aftur heim í nokkra daga

“Við lentum í svakalegum stormi hérna í Augusta og misstum allt rafmagn þannig ég fékk að fara heim í viku. En á stuttum tima hefur mikið gerst þar sem við erum ennþá að gera okkur klára fyrir fyrsta leik fullt af nýjum kerfum og þjálfarinn að finna út úr því hvaða leikmenn hann ætlar að nota og fleira. Það er mikið sem gerist a stuttum tíma og við tökum oft tvær liðs æfingar a dag.”

Nýtt land ný menning og Elías að yfirgefa “hreiðrið” í Njarðvík í fyrsta skipti, hvernig gengur að aðlagast heimamönnum og því sem þeim fylgir?

“Ég myndi segja að ég sé að venjast aðstæðum mjög hratt þar sem ég hef hitt fullt af nýju fólki og mikið af þvi er vinir sem ég er mikið með. Húmorinn er svolitið öðrvisi hérna úti og ég djóka mikið þannig það er örygglega erfiðasta breytingin eins og staðan er núna. En svo eru allir herna mjög góðir og allir hjalpa hvort öðrum hérna með nánast hvað sem er.”

Liði hefur að skipa nokkrum nýliðum fyrir þetta tímabil og Elías ekki eini “útlendingurinn” í liðinu sem svo má segja.

” Mínir helstu félagar hér eru Jon Tran og Meech sem eru með mér í körfunni og svo er einn félagi sem heitir Jivon sem er í hlaupaliðinu. Sá sem ég hef tengst hinsvegar mest á stuttum tíma er Luis Nonfon sem er í körfuboltaliðinu með mér, við erum saman í nánast öllum tímum. Hann er frá Þýskalandi og þannig séð í sömu stöðu og ég. Við skiljum aðstöðu hvors annars nokkuð vel og vitum hvað hvor annar er að fara í gegnum.”

Elías og Luis Nonfon félagi hans frá Þýskalandi í sjúkraherberginu að fá nudd

Það er ekki úr vegi að spyrja Elías um hinn heimsfræga Augusta golfvöll sem er í nánd við skólann.

Spilaði á Augusta golfvellinum

“Já ég er buin að fara í golf hérna tvisvar. Ég á engar kylfur hérna í Ameriku þannig ég fékk að fá sett hjá liðsfélaga mínum Jon Tran lánað. Jon er náttúrulega bakvörður og kylfurnar aðeins stuttar þannig að ég kenni því auðvitað um að ég spilaði tvo verstu hringi lífs míns. Ég hef ekkert farið aftur síðan. Ég mun fjárfesta í setti áður en ég fer aftur á völlinn” sagði Elías Bjarki að lokum.

Fréttir
- Auglýsing -