Búast má við að heitt verði í kolunum þegar úrvalsdeildarlið Stjörnunnar og KR í körfubolta karla mætast í Stjörnuheimilinu í kvöld, fimmtudagskvöld kl 19.15. Liðin tvö léku til úrslita fyrir tveimur árum þegar KR varð meistari og því verður þetta án efa hörkuleikur.
Áður en spennan hefst ætla liðin tvö þó að sameinast og leggja góðu málefni lið. Liðsmennirnir munu setja upp rauðu nefin sem eru einkennismerki dags rauða nefsins hjá UNICEF. Þannig vilja þeir leggja sitt af mörkum til að vekja athygli á átakinu.
Dagur rauða nefsins er á morgun og er langstærsti viðburður ársins hjá UNICEF á Íslandi og verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2.
Áhorfendur sem hafa áhuga á að skarta fagurlega rauðu nefi á leiknum munu geta keypt slík nef á staðnum. Yngri flokkar Stjörnunnar leggja góðu málefni lið og sjá um sölu rauðu UNICEF-nefjanna á leiknum.
Alvogen er aðalstyrktaraðili Unicef á Íslandi og undirritaði í vikunni fjögurra ára samstarfssamning sem tryggir Unicef um 30 milljónir króna sem renna til ýmissra alþjóðlegra verkefna til styrktar börnum. Í tengslum við þetta verkefni mun Alvogen gefa 100.000 króna styrk til barna og unglingastarfs Stjörnunnar.