spot_img
HomeFréttirÚrvalsdeild karla aftur af stað 10. janúar

Úrvalsdeild karla aftur af stað 10. janúar

 
Keppni í Iceland Express deild karla hefst aftur á nýja árinu þann 10. janúar með þremur leikjum í 12. umferð. Toppliðin þrjú, Stjarnan, Njarðvík og KR leika öll 11. janúar og hefur topplið Stjörnunnar leik í Grafarvogi gegn nýliðum Fjölnis.
Af toppliðunum þremur sem öll hafa 18 stig stendur Stjarnan best að vígi með betri innbyrðisviðureignir gegn KR og Njarðvík. Stjarnan lagði KR í DHL-Höllinni svo liðin mætast í Ásgarði á nýja árinu og svo unnu bikarmeistararnir Njarðvík í Ásgarði og mæta þeim grænu því í Ljónagryfjunni.
 
Af fyrstu leikjum toppliðanna á nýja árinu ættu þeir að vera nokkuð samkvæmt bókinni og staðan þar af leiðandi óbreytt, nema ef jólasteikin sitji enn í einhverjum. Stjarnan heimsækir Fjölni í Grafarvog en nýliðarnir hafa aðeins unnið tvo leiki á tímabilinu. Njarðvík fær ÍR í heimsókn í Ljónagryfjuna en ÍR-ingar sitja í 7. sæti deildarinnar með 10 stig. KR tekur svo á móti FSu í DHL-Höllinni.
 
Þrátt fyrir að mikið hafi verið rætt um toppliðin þrjú eru Keflavík, Grindavík og Snæfell ekki langt undan og gera ekki síðra tilkall í deildarmeistaratitilinn en Stjarnan, Njarðvík og KR.
 
Þó staða FSu sé vissulega slæm eru Selfyssingar ekki enn fallnir enda stutt í Fjölni og Breiðablik sem hafa aðeins 4 stig en það er vandséð hvaða lið fari að tapa fyrir núverandi hóp FSu. Tindastóll, Hamar og ÍR munu eiga góðan slag um síðustu sætin í úrslitakeppninni og verður fróðlegt að sjá hvernig erlendan leikmann Stólarnir fá. Þeir hafa ekki verið heppnir í málefnum erlendu leikmanna sinna og þyrftu sleggju á Krókinn til þess að eiga kost á því að stríða toppliðunum. Reyndar hafa Stólarnir sýnt á sér sparihliðarnar nokkrum sinnum í vetur og þá helst með sigri sínum gegn Stjörnunni í Garðabæ.
 
Hér að neðan gefur svo að líta leikjadagskrá toppliðanna á síðari hluta Íslandsmótsins og þar kemur í ljós að Garðbæingar eiga aðeins 5 heimaleiki, Njarðvíkingar eiga 6 heimaleiki og KR líka en athyglisvert er að skoða leikjadagskrá Stjörnunnar því á kafla mun hver stórleikurinn reka annan.
 
Stjarnan mætir fyrst Fjölni og fer svo í tveggja leikja stórpakka gegn Keflavík og Snæfell uns þeir mæta síðan FSu. Eftir leikinn gegn FSu mætast Stjarnan og ÍR og að þeim leik loknum er flugeldaprógramm sem hefst á Sauðárkróki. Þar fá Garðbæingar séns á því að hefna ófaranna gegn Stólunum í Ásgarði áður en þeir taka á móti Grindavík í Garðabæ, heimsækja svo Njarðvík í Ljónagryfjuna og fá svo KR í Garðabæ. Veglegur pakki og þar verða línurnar fyrir úrslitakeppnina örugglega orðnar ansi skarpar.
 
Deildarleikir Stjörnunnar eftir áramót:
 
Fjölnir-Stjarnan
Keflavík-Stjarnan
Stjarnan-Snæfell
FSu-Stjarnan
Stjarnan-ÍR
Tindastóll-Stjarnan
Stjarnan-Grindavík
Njarðvík-Stjarnan
Stjarnan-KR
Hamar-Stjarnan
Stjarnan-Breiðablik
 
Deildarleikir UMFN eftir áramót:
 
Njarðvík-ÍR
Tindastóll-Njarðvík
Njarðvík-Grindavík
Njarðvík-Fjölnir
KR-Njarðvík
Njarðvík-Hamar
Breiðablik-Njarðvík
Njarðvík-Stjarnan
Keflavík-Njarðvík
Njarðvík-Snæfell
FSu-Njarðvík
 
Deildarleikir KR eftir áramót:
 
KR-FSu
ÍR-KR
KR-Tindastóll
Grindavík-KR
KR-Njarðvík
KR-Fjölnir
Hamar-KR
KR-Breiðablik
Stjarnan-KR
KR-Keflavík
Snæfell-KR
 
Fréttir
- Auglýsing -