spot_img
HomeFréttirÚrslitin í NCAA ráðast í nótt! (ítarleg umfjöllun)

Úrslitin í NCAA ráðast í nótt! (ítarleg umfjöllun)

11:51
{mosimage}

(North Carolina og Michigan State slást um bandaríska háskólatitilinn í nótt)

Í kvöld ráðast úrslitin í háskólakörfuboltanum en þá mætast North Carolina og Michigan State í hreinum úrslitaleik um NCAA titilinn. Leikurinn fer fram í Detroit en um helgina var slegið aðsóknarmet í sögu NCAA keppninnar þar sem rúmlega 72 þúsund áhorfendur voru saman komnir á undanúrslitaleikina. Flestir voru þeir á bandi Michigan State en það eru einungis u.þ.b. 140 km milli háskólans og Detroit.

Leikurinn verður í beinni á netinu en hann er einnig sýndur á stöðinni ESPN America (nr 146 á breiðvarpi Símans) leikurinn á að hefjast klukkan 1:21 að íslenskum tíma.

Hér fyrir neðan ætlum við að líta aðeins á liðin tvö sem mætast í úrslitaleiknum, leið þeirra í úrslitaleikinn og fara yfir þeirra helstu leikmenn.

(1) North Carolina Tar Heels (33-3)
Fyrir ári síðan duttu North Carolina út í undanúrslitum eftir frábært tímabil og voru það þeim mikil vonbrigði. Talið var aðalstjörnur liðs myndu láta gylliboðin úr NBA heilla sig og yfirgefa skólann en þegar allir sterkustu leikmenn liðsins ákvaðu að taka annað ár með skólanum  var ljóst að markið var sett hátt. Fjölmiðlarnir kepptust við að spá þeim sem bestum árangri og töluðu sumir jafnvel um að liðið færi taplaust í gegnum tímabilið og myndi enda með því að hampa NCAA titlinum.

Tímabilið fór vel af stað og UNC vann fyrstu 13 leikina sína og voru í góðum málum en í byrjun janúar töpuðu þeir óvænt á móti Boston College á heimavelli og efasemdaraddir um liðið fóru að heyrast. Ekki hjálpaði til að liðið datt út á móti Florida State í undanúrslitum í ACC deildinni en erkifjendurnir í Duke urðu þar meistarar. Liðið var þó sett í eitt af fjórum toppsætunum þegar NCAA móts „Bracketið“ var tilkynnt. Óvissa ríkti hins vegar um þátttöku Ty Lawson aðalleikstjórnanda liðsins en hafði misst af ACC úrslitakeppninni vegna meiðsla.

Í fyrstu umferð mætti liðið (16) Radford háskólanum en Lawson var hvíldur í þeim leik. Leikurinn var allan tímann í höndunum á UNC sem unnu öruggan sigur 101-58, stigahæstir voru þeir Wayne Ellington með 25 stig og Tyler Hansbrough með 22.

Í 32 liða úrslitunum mætti lið (8) LSU háskólanum. Eftir tiltölulega jafnan fyrri hálfleik leiddi UNC í hálfleik 38-29 en LSU byrjaði seinni hálfleikinn af krati og leiddi 54-49 en undir forystu Lawson sem skoraði 21 af 23 stigum sínum í seinni hálfleik tryggðu UNC sér sigur 84-70 með 15-2 áhlaupi á lokakafla leiksins. Lawson og Ellington voru stigahæstir með 23 stig hvor en Marcus Thornton skoraði 25 fyrir LSU.

Í 16 liða úrslitunum eða „Sweet sixteen“ mætti liðið (4) Gonzaga háskólanum. Skemmt er frá því að segja að UNC tóku völdin strax frá fyrstu mínútu og hleypti Gonzaga aldrei nálægt. Þriggja stiga nýting UNC var frábær en liðið var með 11/19 í þriggja en stigahæstir voru Hansbrough með 24 en Lawson og Ellington voru með 19 hvor.

Í „Elite eight“  voru næstu mótherjar (2) Oklahoma skólinn en þar leikur hinn stórskemmtilegi leikmaður Blake Griffin sem er af flestum talin vera besti leikmaðurinn í háskólaboltanum í dag og margir spá því að hann fari fyrstur í NBA valinu í sumar. Það má með gamni geta þess að Griffin meiddist á höfði í leiknum í 16 liða úrslitunum þegar hann rak höfuðið í spjaldið í einni af sínum frábæru troðslum. Griffin og co áttu þó lítið roð í UNC og slæm byrjun varð þeim að falli en liðið skoraði aðeins 3 stig á fyrstu 6 mínútunum. Leiknum lauk með nokkuð þægilegum 72-60 sigri UNC en þetta var jafnframt 100. sigur UNC í NCAA Tournament-inu frá upphafi sem er met. Stigahæstir voru Lawson með 19 og Danny Green með 18. Skrímslið Blake Griffin var með 23 stig og ekki nema 16 fráköst.

Í undanúrslitum eða „Final Four“ voru mótherjarnir spútniklið (3)Villanova  en á leið sinni í Final Four lagði liðið (2)Duke og (1) Pitt sem margir höfðu spáð góðu gengi í mótinu. Leiddir af hinum hæfileikaríku Scottie Reynolds og Donte Cunningham mættu Villanova ofjörlum sínum í UNC og urðu lokatölur 69-83. Stigahæstir í voru Lawson 22, Ellington 20 og Hansbrough 18 stig en Reynolds leiddi Villanova með 17 stig.

Leiðin í úrslitaleikinn:

64 liða úrslit: 101-58 vs (16)Radford
32 liða úrslit: 84-70 vs (8)LSU
16 liða úrslit: 98-77 vs Gonzaga
8 liða úrslit: 72-60 vs (2)Oklahoma
Undanúrslit: 83-69 vs Villanova

{mosimage}
(Ty Lawson)

Lykilleikmenn:
#5  Ty Lawson:  Leikstjórnandinn og heilinn í sóknarleik UNC (University of North Carolina). Talinn vera einn besti ef ekki besti leikstjórnandinn í háskólaboltanum í ár. Valin ACC leikmaður ársins. Sprengir upp varnir andstæðingana með ótrúlegum hraða og krafti og stýrir hinum frægu hraðupphlaupum UNC einsog herforingi. Hefur farið mikinn í undanförnum leikjum liðsins en óvíst var með þátttöku hans í upphafi úrslitakeppninnar vegna meiðsla á tá.

#50 Tyler Hansbrough:  Ef Lawson er heilinn í UNC liðinu þá má segja að baráttuhundurinn Hansbrough sé hjartað í liðinu. Hansbrough hefur heillað margan manninn með ódrepandi baráttu undir körfunni og hefur hrúgað inn verðlaunum á glæstum 4 ára ferli sínum í skólanum. Var m.a. valin í 4. skiptið í All-America liðið, er stigahæsti leikmaðurinn í sögu ACC deildarinnar og komst upp fyrir Lew Alcindor betur þekktan sem Kareem Abdul-Jabbar í 5. sætið fyrir flest stig skoruð í NCAA tournamentinu.
#22  Wayne Ellington:  Frábær sóknamaður sem getur skorað á marga vegu en er þó sérstaklega skæður fyrir utan þriggjastiga línuna.
#14  Danny Green:  Einnig mikil skytta og nýtur góðs af því að spila með leikmanni eins og Lawson. Er í mikilvægu hlutverki í UNC liðinu á báðum endum vallarins.

(2)Michigan State Spartans (31-6)
MSU unnu Big Ten deildarkeppnina en töpuðu fyrir Ohio State í Big Ten úrslitakeppnina en deildin er annaláuð fyrir frábæran varnarleik og lágt stigaskor. Liðið er talið eitt af tíu bestu varnarliðunum í háskólaboltanum en meiðsli og veikindi lykilleikmanna liðsins yfirtímabilið hafði sett strik í reikninginn hjá liðinu þrátt fyrir góð úrslit í Big Ten deildinni.

Það er skemmtileg tilviljun að einmitt fyrir 30 árum eða árið 1979 var Michigan State liðið einnig í úrslitum NCAA mótsins í einum frægasta leik bandaríska háskólaboltans frá upphafi. Þá mætti liðið Indiana State í úrslitaleiknum og kynntist þá heimsbyggðin í fyrsta skipti tveimur af bestum körfuboltamönnum sögunnar. Það voru hinir frábæru Larry Bird leikmaður Indiana State og seinna Boston Celtics og hin brosmildi Earvin „Magic“ Johnson leikmaður MSU og seinna Los Angeles Lakers. Hinn síðar nefndi hefur einmitt tekið virkan þátt í undirbúningi MSU liðsins og verið áberandi á áhorfendapöllunum. MSU fór með sigur af hólmi undir forystu Magic á vellinum árið 1979 og það er spurning hvort að töfrar hans ná að hjálpa liðinu að vinna titillinn aftur núna 30 árum seinna.

(15) Robert Morris háskólann voru fyrstu mótherjar MSU liðsins og reyndust framan af verðugir mótherjar. En þegar tæpar 5 mínútur lifðu af seinni hálfleik og staðan 30-30 fór MSU vörnin í gang. Á 10 mínútna kafla í lok fyrri hálfleiks og byrjun þessi seinni skoraði Robert Morris liðið ekki stig með MSU skoruðu 21. Það nægði til sigur og urðu úrslitin 77-62. Stigahæstir í MSU voru framherjinn Raymar Morgan og varamaðurinn Draymond Green með 16 hvor.

Í 32 liða úrslitum voru mótherjarnir (10) USC skólinn. Leikurinn var í járnum allan tímann en undir lokin náðu MSU að loka á USC sem skoraði aðeins 2 stig á síðustu 4 og hálfri mínútunni gegn 7 stigum frá MSU sem dugði til 74-69 sigurs. Stigahæstur var varnarsérfræðingurinn Travis Walton fyrir MSU sem vann frákastabaráttunna 33-24 en Dwight Lewis var með 19 fyrir USC.

Sweet Sixteen mótherjar MSU voru núverandi NCAA meistararnir í (3)Kansas sem unnu mótið í fyrra með eftirminnilegum hætti í úrslitaleiknum gegn Memphis. Allt byrjunarliðið úr meistaraliðinu síðan fyrir ári síðan yfirgaf skólann fyrir atvinnumennskuna en þeir leikstjórnandinn Sherron Collins og miðherjinn Cole Aldrich fóru fyrir Kansas liðinu sem leiddi með 8 stigum í hálfleik eftir að hafa komist mest 13 stigum yfir. Goran Suton miðherji MSU liðsins steig heldur betur upp í seinni hálfleik og á sama tíma og hann lokaði á Aldrich skoraði hann 20 stig sem er það mesta sem hann hefur skorað í vetur. MSU náði að jafna leikinn fljótlega í seinni hálfleik en Kansas með frumkvæðið áfram. Í stöðunni 60-55 og 3:26 eftir af leiknum fór hin sterka MSU vörn í gang. Hin frábæri leikstjórnandi liðsins og Big Ten leikmaður ársins, Kalin Lucas, kom liðinu svo yfir 63-60 með frábærri körfu plús víti og kláraði MSU liðið leikinn með frábærri vítanýtingu en liðið nýtti 16 af 17 vítum sínum í leiknum. Lokatölur 67-62 fyrir MSU en stigahæstir voru Suton 20 og Lucas 18 en Collins með 20 og Aldrich með 17 stig fyrir Kansas. Breidd MSU liðsins skilaði sínu en þeir fengu 23 stig af bekknum gegn aðeins 7 hjá Kansas.

Eftir að hafa mætt meisturunum í Kansas í 16-liða úrslitunum þá beið þeirra ekki auðveldara verkefni í 8-liða úrslitunum en þar voru mótherjarnir (1) Louisville en þeir voru taldir af NCAA Selection Commitee besta liðið í mótinu. Louisville undir stjórn þjálfarans Rick Pitino hafði farið nokkuð auðveldlega í gegnum fyrstu umferðir mótsins en gegn MSU lenti liðið á vegg. Eftir hnífjafnan fyrri hálfleik og spennandi upphafsmínútur þess seinni fór hin aggresíva og sterka maður á mann vörn MSU liðsins að taka toll af sóknarleik Louisville liðsins. Í stöðunni 37-36 fyrir MSU skildu leiðir þar sem strákarnir hans Pitino skoruðu aðeins eina körfu utan af velli síðustu rúmu 5 mínúturnar í leiknum. Lokatölurnar 64-52 og MSU komnir í Final Four sem fram fór í Detroit sem er aðeins um 150 km frá MSU skólanum. Stigahæstur var Suton með 19 stig en varnaleikur Waltons á hinn frábæra Terrence Williams hjá Louisville sem skoraði aðeins 5 stig í leiknum stóð uppúr.

Í Final Four mætti liðið enn einu stórliðinu en það voru (1) Connecticut sem margir höfðu spáð að myndi vinna titillinn í ár. Liðið er leidd áfram af hinum öfluga leikstjórnanda A.J. Price og co-Big East leikmanni ársins hinum risavaxna Hasheem Thabeet. Liðið var þó fyrir áfalli þegar hinn stjörnubakvörðurinn í liðinu, Jerome Dyson meiddist á hné í febrúar og missti af restinni af tímabilinu. MSU mætti til leiks af sama krafti og með frábærum varnarleik og snörpum hraðupphlaupum var það einungis tímaspursmál hvenær liðið myndi ná forystunni gegn U-Conn liðinu. Einsog svo oft áður í mótinu var það um miðbik seinni hálfleiks sem MSU liðið seig fram úr undir forystu Lucas. Walton átti en einn frábæra varnarleikinn en hann hélt Price í 15 stigum (5 af 20 í skotum). MSU liðið átti frábæran dag og vann örugglega að lokum 82-73. Lucas var stigahæstur með 21 stig og Raynmar Morgan átti sinn besta leik í mótinu með 18. Hjá U-Conn stóð hinn magnaði íþróttamaður Stanley Robinson uppúr með 15 stig og 13 fráköst en hann skiptist á að troða yfir MSU liðið og láta troða yfir sig.

Leiðin í úrslitaleikinn
64 liða úrslit: 77-62 vs Robert Morris
32 liða úrslit: 74-69 vs USC
16 liða úrslit: 67-62 vs Kansas
8 liða úrslit: 64-52 vs Louisville
Undanúrslit: 82-73 vs Connecticut

{mosimage}
(Kalin Lucas)

Lykilleikmenn:

#1  Kalin Lucas:  Leikstjórnandinn og töffarinn í liðinu. Big Ten leikmaður ársins en hann hefur sýnt það í mótinu að hann spilar hvað best þegar mest liggur undir.
#5 Travis Walton:  Frábær varnamaður á boltann enda valinn varnarmaður ársins í einni bestu varnardeildinni í háskólaboltanum. Hefur einungis skorað fimm sinnum yfir 10 stig á árinu en framlag hans til liðsins er ótvírætt. Hann slökkti á Terrence Williams hjá Louisville og tók A.J. Price úr sambandi hjá U-Conn. Hvað gerir hann gegn Wayne Ellington og/eða Ty Lawson í kvöld.
#2 Raynmar Morgan:  Hæfileikaríkur framherji sem getur skorað á margan hátt. Veiktist illa á tímabilinu eftir frábæra byrjun og hefur ekki náð sömu hæðum síðan. Átti þó frábæran leik gegn Connecticut og því spurning hvort hann sé kominn í gamla gírinn.
#14 Goran Suton:  Miðherji liðsins sem hefur átt upp og niður leiki í mótinu hingað til. Mjög góður varnarmaður og fær væntanlega það verkefni að reyna að hemja orkuboltann og baráttuhundinn Tyler Hansbrough.
#3, #15, #0, #23 og #10:  Einn af helstu styrkleikjum MSU liðsins hefur verið breiddin en það eru 8-10 leikmenn sem spilar tíu mínútur eða meira hjá liðinu. Það er því ekki að furða að liðið nær oft yfirhöndinni um miðbik seinni hálfleiks þegar þreytan er farin að segja til sín hjá andstæðingnum en fæturnir ennþá ferskir hjá MSU liðinu.

Fyrir Michigan State liðið verður mikilvægt að hægja á Ty Lawson og hraðupphlaupum UNC liðsins en jafnframt að loka á skyttunar Green og Ellington. Athyglisvert verður að fylgjast með baráttu Tyler Hansbrough og Goran Suton undir körfunni en hún gæti átt eftir að segja mikið um hvernig úrslitin fara. Barátta leikstjórnendanna tveggja verður í algleymingi en þeir Lawson og Kalin Lucas hafi báðir átt frábært mót og hafa leitt liðin sín með mikilli festu. Í fyrstu fimm leikjum MSU í mótinu hafa andstæðingarnir alltaf gefið eftir undir lokin gegn hinni stífu maður á mann vörn og verður fróðlegt að sjá hvort UNC liðið verði það sjötta sem verður MSU vörninni að bráð.

Liðin hafa mæst einu sinni áður í vetur en það var í byrjun desember og unnu UNC þann leik örugglega, 98-63, þar sem Hansbrough fór mikinn með 25 stig en Suton var ekki með vegna meiðsla. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan og má reikna með mun jafnari og spennandi leik í kvöld

Það er þó ljóst að það verða krýndir NCAA meistarar í kvöld, annað hvort hið stjörnumprýdda sóknarlið North Carolina sem hafa unnið alla fimm leikina með 12 stigum eða meira og virðast ætla að standa undir þeim væntingum sem hafa verið gerðar til þeirra í allan vetur. Eða varnarmaskínan Michigan State sem hefur hakkað í sig hvert stórliðið á fætur öðru og virðist vera að fylgja örlögum sínum að töfra fram NCAA titil 30 árum eftir að MSU og Magic lögðu Indiana State og Larry Bird í leiknum fræga.

Finnur Stefánsson

Fréttir
- Auglýsing -