9:00
{mosimage}
Úrslitaleikir Poweradebikarsins fara fram í dag í Laugardalshöll. Klukkan 14 hefst kvennaleikurinn þar sem eigast við Haukar og Keflavík en karlaleikurinn hefst klukkan 16 og þar eigast við KR og Snæfell.
Haukar og Keflavík hafa einokað þessa keppni síðast liðin 5 ár, Haukar unnið síðustu 2 ár og Keflavík 3 ár á undan og árið 2005 mættust þau í úrslitum og þá sigruðu Haukar. Einnig hafa þessi lið háð marga hildina undanfarin ár á mörgum vígstöðvum.
Á leið sinni í úrslitaleikinn byrjuðu Haukastúlkur á að leggja Snæfell en svo lögðu þær Val í undanúrslitum. Keflavík mætti KR í átta liða úrslitum og svo Grindavík í undanúrslitum.
Leikur KR og Snæfells er einnig athyglisverður. Þetta er í fjórða skipti sem KR leikur til úrslita í keppninni en þeir hafa aldrei unnið. Snæfell hefur hins vega aldrei tapað leik keppni hinna fjögurra fræknu. Þeir hafa einu sinni áður verið með og þá sigruðu þeir í keppninni, árið 2005.
KR byrjaði á að leggja Hamar í átta liða úrslitum keppninnar í ár en unnu svo Skallagrím í undanúrslitum. Snæfell lagði Þór Ak. í átta liða úrslitum og Njarðvík í undanúrslitum.
Úrslitaleikur karla verður sýndur beint á RÚV klukkan 16 í dag.