spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaÚrslitakeppnis-stemming í Ásgarði - Keflavík með sigur

Úrslitakeppnis-stemming í Ásgarði – Keflavík með sigur

Í kvöld mættust Stjarnan og Keflavík í Ásgarði í 8. umferð úrvalsdeildar kvenna, seinasta leik beggja liða fyrir landsleikjahlé kvenna. Það var mikil stemming á leiknum og bæði liðin spiluðu þétta vörn en Keflavík hafði betur eftir spennandi lokamínútur, 74-77.

Fyrir leikinn

Fyrir leikinn sat KR á toppi deildarinnar eftir að hafa unnið Hauka í gær en bæði Stjarnan og Keflavík gátu jafnað sigurhlutfall KR-inga með því að vinna leik kvöldsins. Auður Íris, bakvörður Stjörnunnar, var ennþá meidd á hendi og því ekki með og Keflavíkurmegin voru þær Emelía og Þóranna enn meiddar frá því að þær meiddust á seinasta tímabili.

Gangur leiksins

Keflavík byrjaði leikinn sterkar og náði fljótlega 2-10 forystu eftir rúmar 2 mínútur. Stjörnustelpur voru hins vegar fljótar að fara í gang og gátu aðeins leiðrétt stöðuna á næstu mínútum. Brittany Dinkins, sem hafði verið frábær fyrir Keflavík í síðustu leikjum, byrjaði á að setja fyrstu 6 skotin sín af 7, þar af alla fjóra þristana sína. Stjarnan gat lítið gert gegn vörn Suðurnesjastúlknanna og gerðu mörg mistök á fyrstu 10 mínútunum. Staðan var því 12-21 við lok fyrsta leikhluta.

Gestirnir héldu áfram að spila þétta vörn á leikstjórnanda Stjörnunnar, Danielle Rodriguez, sem skilaði sér í því að hún hafði fiskað 7 villur á fyrstu 15 mínútum leiksins. Bæði lið fóru að spila mjög óagaðan og gæðalítinn körfubolta á seinni 5 mínútum leikhlutans. Stjarnan gat hins vegar nýtt sér óreiðuna betur en Keflavík og minnkuðu muninn í 1 stig fyrir gjall hálfleiksklukkunnar; 37-38.

Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn næstum því jafn illa og þann fyrri og Litlu Slátrarnir voru fljótlega komnir með 8 stig forystu. Þá tóku Stjörnustúlkur við sér og fóru að þjarma að Keflvíkingum. Með harðfylgi tóku Garðbæingar forystuna í fyrsta sinn á 6. mínútu þriðja leikhluta. Danielle, sem hafði byrjað leikinn rólega, jafnaði stigaskor Brittany og fór fram úr henni á 7. mínútu og þær hófu að skiptast á að vera stigahæstar í leiknum. Það virtist sem að þegar Dani var stigahærri þá væru Stjarnan með forystuna og öfugt. Brittany var stigahærri í lok þriðja og staðan því í samræmi við það; 56-57 fyrir Keflavík.

Mikill ákafi var í leik beggja liða í fjórða og þétt spilað. Keflavík gat þó haldið forystunni með góðu framlagi frá Bryndísi Guðmundsdóttur og Salbjörgu Rögnu Sævarsdóttur á seinustu 10 mínútunum. Þó að Stjarnan hafi verið syndsamlega nálægt því að jafna á lokametrunum þá voru nokkur lítilsháttar mistök í lokin dýrkeypt og leikurinn fór 74-77, Keflavík í vil.

Lykillinn

Brittany Dinkins átti annan frábæran leik og skilaði í kvöld 40 stigum, 10 fráköstum og fiskaði 9 villur. Hún lauk leik með 37 í framlag og 52% skotnýtingu utan af velli (13/25). Salbjörg Ragna var mjög öflug fyrir Keflavík líka, en hún skilaði 19 stigum (þ.a. 8 stig í lokafjórðungnum) og 6 fráköstum í leiknum. Hjá Stjörnunni var Dani Rodriguez framlagshæst með 32 stig, 8 fráköst, 12 stoðsendingar, 6 stolna bolta og 12 fiskaðar villur.

Úrslitakeppnisstemming í deildarleik

Það var ákveðin stemming yfir þessum leik og bæði liðin að spila á hárri ákefð, enda mikilvægur leikur. Leikurinn einkenndist af hörku og var nóg um villur og hart barist allt til enda. Á lokasekúndunum setti Florencia Palacios þrist til að koma muninum í eitt stig og Keflavík kom boltanum strax á Brittany sem fékk villu til að stöðva klukkuna og tvö víti. Stjarnan fékk leikhlé og ágætt tækifæri til að jafna með þrist á lokasekúndunni en skot Dani fór forgörðum og heimastúlkur náðu ekki að merja jafntefli. Æsispennandi leikur með góðri stemmingu.

Samantektin

Þá eru Keflvíkingar komnir upp fyrir KR en eru á eftir Snæfellsstúlkum sem unnu Breiðablik í kvöld. Stjarnan er dottin niður í fjórða en er ekki nema einum sigri á eftir 2. og 3. sætinu. Mjög jafnt á toppnum og gaman verður að sjá hverjar tróna á toppnum þegar deildarkeppninni lýkur.

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn
Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -