Ég ætla að byrja á spá fyrir vesturdeild enda hefjast 4 liða úrslit vesturdeildar fyrr en austurdeildar þar sem enn eru tveir oddaleikir eftir í viðureignum austan megin!
Fyrst upprifjun á 16 liða spánni minni:
Golden State Warriors fór létt með Houston Rockets eins og við var að búast og það þrátt fyrir að missa aðalstjörnu liðsins – Steph Curry vegna meiðsla. Ég spáði Warriors 4-0 sigri en Rockets tókst að vinna einn leik.
San Antonio Spurs “sópaði” Memphis Grizzlies eins og ég spáði og þrátt fyrir að Grizzlies hafi náð að sýna smá lit þá áttu þeir aldrei séns gegn sterku liði Spurs.
Oklahoma City Thunder vann Dallas í 6 leikum (ég hafði spáð 7 leikja seríu) þrátt fyrir að spila ekki sérlega vel! Dallas var bara ofurliði borið af sterkara liði.
Portland Trail Blazers unnu Los Angeles Clippers 4-2 (ég hafði spáð Clippers sigri í sex leikjum), þar sem alvarleg meiðsli Chris Paul í fjórða leiknum gerði út um vonir Clippers um að komast áfram, Clippers misstu reyndar Blake Griffin líka sem minnkaði sigurlíkur þeirra enn meira.
Ég var sem sagt með þrjár viðureignir af fjórum réttar (en ekki fjölda leikja í öllum tilfellum) og ætla að gera tilraun til að gera betur í 4-liða úrslitunum í Vesturdeildinni:
Það verður að segjast að það eru að mínu mati tvær drauma úrslitaviðureignir í vesturdeildinni Golden State Warriors gegn San Antonio Spurs eða Oklahoma City Thunder og líkur á því að önnur hvor viðureignin verði að veruleika er að mínu mati all verulega miklar!
Golden State Warriors – Portland Trailblazers
Sérfræðingar vestanhafs velta því mikið fyrir sér hvort Warriors geti orðið meistarar án Steph Curry og ég er á því að þeir geti það, en eftir því sem ég kemst næst þá fáum við ekki svar við spurningunni því allar líkur eru á að Curry spili á ný og jafnvel í þessari viðureign.
Golden State hefur sýnt að það hefur á frábærum leikmönnum að skipa sem stigu upp þegar á þurfti að halda gegn Rockets, Draymond Green (sem er einn allra besti alhliða leikmaður deildarinnar), Klay Thompson, André Igoudala, Harrison Barnes og Shaun Livingston auk fleiri leikmanna sem allir vita sitt hlutverk í liðinu auk þess sem leikgleðin skín úr augum leikmanna liðsins. Portland hefur á að skipa einu af skemmtilegasta tvíeyki deildarinnar þeim Damian Lillard og McCollum sem á góðum degi geta unnið leiki nánast upp á sitt eindæmi. Mason Plumlee hefur stigið upp seinni hluta tímabilsins og átti fína seríu gegn Clippers. Margir gætu átt von á mjög auðveldum sigrum hjá Golden State en rétt er að minnast þess að Portland niðurlægði Warriors 137-105 þann 19. febrúar síðastliðinn en ekkert annað lið skoraði meira en 125 stig gegn Golden State í vetur og 32 stiga tapið var það versta hjá Warriors í vetur. Því má búast við að Trail Blazers geti bitið hastarlega frá sér amk í einhverjum leikjanna! Ég á samt von á því að Golden State klári þessa viðureign þeir hafa bara hreinlega á betra liði að skipa og þótt Steph Curry vanti í liðið þá hef ég á tilfinningunni að Portland hreinlega geti ekki unnið Warriors í sjö leikja seríu, til þess þyrfti Golden State að tapa fjórum leikjum eftir að hafa sett met og eingöngu tapað níu leikum í allan vetur – nei það er ekki að fara að gerast!
Mín spá: Golden State Warriors 4 – Portland Trail Blazers 1
San Antonio Spurs – Oklahoma City Thunder (2-2 í vetur)
Klárar dísel vélin hans Popovitch þetta ekki af gömlum vana? Spurs liðið mallar áfram, spilar árangursríkan liðs körfubolta þar sem alltaf er leitað að “opnara” skoti og er á köflum unaðslegt að horfa á liðið spila. Thunder liðið aftur á móti spilar meira “hetjubolta” þar sem Russell Westbrook og Kevin Durant skiptast á að reyna að vera hetjur (og tekst það reyndar ans oft!). Vörn San Antonio er ein sú allra best í deildinni – ef ekki sú besta og Oklahoma liðið er lið sem verður að skora mikið í leikjum og er eitt af bestu sóknarliðunum í deildinni verður að finna lausn á vörn Spurs ætli þeir sér í úrslitin gegn Golden State! Kawhi Leonard og LaMarcus Aldridge eru aðal mennirnir í Spurs liðinu og má ætla að liðið standi og falli með frammistöðu þeirra. Leonard fær líklega að passa Durant í vörninni og það getur orðið athyglisvert að fylgjast með þeirra baráttu en Leonard er einn af fáum varnarmönnum sem getur hugsanlega varist Durant “einn á einn”. Hvernig Spurs ætla að stoppa Wastbrook er svo annað mál, enginn varnarmanna Spurs hefur hraðann til að eiga við Westbrook en líklega lendir það á Danny Green að gæta hans (Tony Parker færi held ég afar illa út úr því að reyna!) og það getur reynst erfitt. Tim Duncan á eflaust eftir að fá aukinn tíma inn á vellinum í þessum viðureignum þar sem Oklahoma er ekki með miðherja sem “teygir” á vörninni, Adams og Kanter vinna meira nálægt körfunni en frá henni sem auðveldar Duncan vinnuna. LaMarcus Aldridge hefur staðið sig vonum framar hjá San Antonio og hefur passað vil inn í liðið (enda frábær leikmaður), Manu Ginobili á sínar stundir og getur toppað á réttum tíma en til að Spurs vinni viðureignina þá verður þriggjastiga nýtingin hjá þeim að vera mjög góð og Danny Green verður að halda áfram þar sem frá er horfið eftir Memphis leikina en ekki detta í rúm 30% nýtingu eins og á tímabilinu. Oklahoma liðið stendur og fellur með Kevin Durant og Russell Westbrook sem eru hugsanlega hættulegasta tvíeyki deildarinnar. Ef skotnýting Durant verður betri en gegn Dallas (sem hún verður að vera ef Thunder á að eiga möguleika) og Westbrook verður nálægt þrefaldri tvennu í hverjum leik þá á Oklahoma City allan möguleika á að komast í úrslit vesturstrandarinnar! Serge Ibaka var með yfir 60% nýtingu gegn Dallas og hefur verið að spila vel og fær líklega það hlutverk að gæta Aldridge og Steve Adams og Enes Kantor hafa verið að standa sig vel á köflum (sérstaklega var Kantor að spila vel gegn Dallas) og verða að eiga jafngóða ef ekki betri leiki gegn Spurs. Þá getur Dion Waiters dottið í gír sóknarlega en á það til að gera full mikið af mistökum. Sem kemur einmitt að því sem ég held að muni ráða baggamuninn í viðureignunum en það eru mistök og tapaðir boltar sem leikmenn Oklahoma City Thunder eru alltof gjarnir á að gera!
Ég spái því að það verði heimaleikjarétturinn sem sker úr um sigurvegara í þessari viðureign en San Antonio Jafnaði met Boston Celtics frá ’85-’86 með því að tapa einungis einum heimaleik í allan vetur!
Mín spá: San Antonio Spurs 4 – Oklahoma City Thunder 3
Samkvæmt mini spá þá mætast Golden State Warriors og San Antonio Spurs í úrslitum Vesturdeildarinnar.
(Við fullvissum lesendur að þessi grein barst til okkar áður en leikir í þessum úrslitum hófust og ættu því að vera skotheld)