spot_img
HomeFréttirÚrslit kvöldsins: Njarðvík lagði Stjörnuna í Ljónagryfjunni-Annar ,,buzzer“ hjá Charlie

Úrslit kvöldsins: Njarðvík lagði Stjörnuna í Ljónagryfjunni-Annar ,,buzzer“ hjá Charlie

Sjöundu umferð í Iceland Express deild karla lauk í kvöld og þá voru þrír leikir á dagskránni í 1. deild karla. Eftir sigur Grindavíkur á KR í gær var enginn sem gat hrint þeim af toppnum í leikjum kvöldsins en Stjarnan gat með sigri í Njarðvík haldið forystu Grindavíkur í aðeins tveimur stigum en Garðbæingar heimsóttu Njarðvíkinga í Ljónagryfjuna og máttu bíða ósigur gegn gestgjöfum sínum. Þá var Charles Parker aftur á ferðinni fyrir Keflvíkinga með flautukörfu eftir framlengdan leik í Stykkishólmi. Í þremur leikjum í úrvalsdeild voru skoruð 581 stig í kvöld, menn aldeilis í stuði þetta föstudagskvöldið!
Úrslit kvöldsins í IEX-deild karla:
 
Njarðvík 105–98 Stjarnan
Cameron Echols átti magnaðan dag með Njarðvíkingum, setti 29 stig og tók 21 frákast. Travis Holmes bætti við 22 stigum og 7 stoðsendingum og þá var Elvar Friðriksson með 20 stig og 10 stoðsendingar. Hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 35 stig og 7 stoðsendingar og Keith Cothran gerði 20 stig. Jovan Zdravevski var á leikskýrslu hjá Stjörnunni en kom ekki við sögu í leiknum en hann hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið.
 
Snæfell 113–115 Keflavík (framlengt)
Framlengja varð í stöðunni 100-100 og Keflvíkingar voru þá búnir að missa Jarryd Cole af velli með fimm villur. Quincy Hankins-Cole átti síðasta skot Snæfells í lok venjulegs leiktíma en það geigaði og því varð að blása til framlengingar. Charles Parker reyndist hetja Keflavíkur á nýjan leik er hann skoraði þegar ein sekúnda var eftir af framlengingunni. Steven Gerard gerði 36 stig í liði Keflavíkur og Parker 32 og var auk þess með 12 fráköst. Hjá Snæfell voru þeir Hafþór Ingi Gunnarsson og Quincy Hankins-Cole báðir með 23 stig og Cole auk þess með 12 fráköst.
 
Þór Þorlákshöfn 82 – 68 Fjölnir
Árni Ragnarsson og Ægir Þór Steinarsson voru ekki á skýrslu hjá Fjölni í kvöld. Calvin O´Neal gerði 23 stig og tók 7 fráköst hjá gulum og Nathan Walkup bætti við 11 stigum og 13 fráköstum. Hjá heimamönnum í Þór voru þeir Darrin Govens og Guðmundur Jónsson báðir með 16 stig og þeir Mike Ringgold og Darri Hilmarsson bættu við 14 stigum og Ringgold var auk þess með 13 fráköst.
 
Úrslit í 1. deild karla:
 
KFÍ 110–103 Breiðablik
Christopher Miller-Williams lék ekki með KFÍ í kvöld sökum smávægilegra meiðsla í hné en heimildarmenn okkar á Ísafirði segja hann kláran strax í næsta verkefni. Craig Schoen var ansi nærri þrennunni með enn eina glimrandi frammistöðuna fyrir KFÍ, kappinn setti 27 stig, tók 10 fráköst og gaf 9 stoðsendingar og var með 6 stolna bolta. Ari Gylfason kom honum næstur með 26 stig og Kristján Andrésson bætti við 23 stigum. Hjá Breiðablik voru þrír jafnir með 20 stig, þeir Hraunar Karl Guðmundsson, Atli Örn Gunnarsson og Þorsteinn Gunnlaugsson en Þorsteinn bætti einnig á sig 23 fráköstum.
 
Hamar 106–87 Ármann
Brandon Cotton gerði 25 stig í liði Hamars og Ragnar Nathanaelsson mætti með tröllatvennu, 20 stig og 19 fráköst. Hjá Ármenningum var Snorri Páll Sigurðsson með 23 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar.
 
FSu 74–99 ÍA
Úrslit vantar
 
 
Fréttir
- Auglýsing -