spot_img
HomeFréttirÚrslit kvöldsins: ÍR-ingar landa sigri í Hellinum

Úrslit kvöldsins: ÍR-ingar landa sigri í Hellinum

Þrír leikir fóru fram í Iceland Express deild karla í kvöld sem mörkuðu upphaf fjórðu umferðar. Í Njarðvík mættust heimamenn og nýliðar Þórs úr Þorlákshöfn, ÍR tók á móti Snæfell í Seljaskóla og í Garðabæ mættust Stjarnan og Íslands- og bikarmeistarar KR.

Njarðvík-Þór Þorlákshöfn 75-90
Nýliðar Þórs halda áfram að safna stigum en þeir unnu góðan sigur í kvöld í Njarðvík. Darrin Govens var enn og aftur sjóðandi heitur hjá Þórsurum en hann var stigahæstur sinna manna með 29 stig. Ásamt því tók hann fjögur fráköst og gaf átta stoðsendingar. Tveir leikmenn Þórs voru með tvennu en það eru þeir Mike Ringgold og Guðmundur Jónsson. Ringgold var með 14 stig og 11 fráköst og Guðmundur skoraði einnig 14 stig og tók 10 fráköst. Hjá Njarðvík var Cameron Echols með 21 stig og 14 fráköst. Elvar Már Friðriksson setti 18 stig og Travis Holmes setti 13 stig og tók jafnmörg fráköst.

ÍR-Snæfell 85-80
ÍR-ingar unnu upp stórt forskot Snæfellinga og lönduðu flottum sigri. Nemanja Sovic var með 26 stig fyrir ÍR. Ellert Arnarson bætti við 17 stigum og Níels Dungal var með tvennu 14 stig og 14 fráköst. Hjá Snæfellingum var Quincy Hankins-Cole stigahæstur með 21 stig en hann tók einnig níu fráköst. Jón Ólafur Jónsson bætt við 15 stigum og tók 11 fráköst. Nýji leikmaður Snæfells Marquis Sheldon daðraði við þrennuna en hann skoraði 10 stig, tók 10 fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Stjarnan-KR 76-84
KR-ingar lönduðu mikilvægum sigri í kvöld þegar þeir unnu Stjörnumenn á heimavelli þeirra í Ásgarði. Edward Lee Horton Jr. Var með 21 stig fyrir KR og David Tairu bætti við 16 stigum. Hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 22 stig og Marvin Valdimarsson skoraði 15.

Mynd: Nemanja Sovic var stigahæstur ÍR-inga í kvöld.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -