Keflavík stóð af sér áhlaup Stjörnunnar í seinni hálfleik og innsiglaði 2 stiga sigur á Garðabæjarliðinu 87-85. Earl Brown var stigahæstur hjá Keflavík en Al'lonzo Colemand leiddi Stjörnuna með stórleik, 39 stig og 18 fráköst. KR sigraði ÍR á öruggan máta eða 89-58. Michael Craion stigahæstur hjá KR með 21 stig og 12 fráköst en Sveinbjörn Claessen var stigahæstur ÍR-inga með 16 stig. Hrein einstefna var í Stykkishólmi þegar Þór Þorlákshöfn brunaði heim með stigin tvö eftir öruggan 82-100 sigur. Vance Hall leiddi Þór með 37 stig en Sherrod Wright var stigahæstur Snæfells með 29 stig.
Ekki munaði miklu um Stephen Madison í leik Hauka gegn Hetti í kvöld en Haukar sigruðu örugglega með 20 stiga mun 68-88. Haukar misstu Finn Atla Magnússon í meiðsli snemma í leiknum en hann fór út af eftir aðeins 10 mínútna leik, meiddur á hné. Kári Jónsson var stigahæstur Hauka með 29 stig en Tobin Carberry leiddi Hött með 24 stig.
Tindastóll sigraði svo FSu öruggt í Síkinu 107-80. Jerome Hill skoraði 32 stig og tók 12 fráköst fyrir Tindastól en Chris Woods skoraði 30 fyrir FSu.