spot_img
HomeFréttirÚrslit Íslandsmóta yngri flokka um helgina

Úrslit Íslandsmóta yngri flokka um helgina

8:33

{mosimage}

Um næstu helgi fara fram úrslitaleikir í fjórum yngri flokkum í Laugardalshöll.

 

Á föstudagskvöldið hefur stúlknaflokkur leik en þar eigast við klukkan 19 Haukar og Keflavík og klukkan 21 eigast við Grindavík og Kormákur. Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 2000 sem keppt er í þessum flokk og hafa Haukastúlkur haft mikla yfirburði í vetur og einungis tapað einum leik, gegn Grindavík 18. mars síðastliðinn. Þær urðu m.a. bikarmeistarar þegar þær unnu Keflavík í úrslitaleik 61-47.

 

 

{mosimage}

Keppni í 10. flokk kvenna hefst svo á laugardagsmorgun klukkan 9, þá eigast við Haukar og Keflavík og strax að þeim leik loknum eigast við Hrunamenn og Njarðvík. Haukastúlkur hafa siglt jafnt og þétt í gegnum veturinn og hafa unnið 13 af 16 leikjum sínum í mótunum 4 á meðan Keflavík hefur unnið 9 af 16. Hrunamenn féllu niður í B riðil í 2. umferð en komu strax upp aftur og hafa unnið 4 af 12 leikjum sínum í A riðli í vetur á meðan Njarðvík hefur unnið 6 af 16. Í bikarúrslitum í þessum flokk sigruðu Haukastúlkur Hrunamenn 62-57. Þetta er sjöunda keppnistímabilið sem keppt er í 10. flokk kvenna og hafa Haukastúlkur sigrað þrisvar.

 

{mosimage}

 

Í 10. flokki karla eigast Fjölnir og Skallagrímur við klukkan 12 og klukkan 13:30 eigast svo við Breiðablik og Haukar. Fjölnisstrákar hafa haft mikla yfirburði í þessum flokk í vetur og aðeins tapað 1 af 20 leikjum sínum í Íslandsmótinu, það var gegn Snæfelli 12. nóvember. Skallagrímsmenn hafa aftur á móti unnið 11 af 20 leikjum sínum. Breiðablik og Haukar hafa sama sigurhlutfall en bæði lið hafa unnið 12 af 20 leikjum sínum. Það er athyglisvert að þau fjögur lið sem eru í úrslitum þetta árið hafa orðið í fjórum efstu sætum allra fjögurra umferða vetrarins. Í bikarúrslitaleik 10. flokks karla áttust við Fjölnir a og Fjölnir b og sigraði  A liðið 69-41. Löng hefð er fyrir keppni í 10. flokki sem áður hét 4. flokkur og hafa KR ingar sigrað ofast í þessum flokk eða fjórum sinnum en Fjölnisstrákar eru ekki langt undan með þrjá titla. Af hinum þremur liðunum eru það aðeins Haukar sem hafa unnið þennan titil áður en það var árið 1994.

 

{mosimage}

 

Drengjaflokkur lék í vetur heima og að heiman og hafa liðin því leikið 16 leiki hvert og þau lið sem mætast í úrslitakeppninni hafa því mæst tvisvar áður í vetur.

Keflavík endaði á toppnum, sigraði í 14 leikjum. Þeir mæta Fjölni sem sigraði í 11 leikjum en liðin í 2. til 4. sæti unnu öll 11 leiki og voru það því innbyrðisviðureignir sem skáru úr um að Fjölnismenn mæta Keflavík í undanúrslitum. Keflavík og Fjölnir hafa leikið tvisvar í vetur og sigruðu Keflavíkingar á heimavelli 87-74 en í Grafarvoginum sigruðu Fjölnisstrákar 69-62. Leikur liðann hefst klukkan 15. Að honum loknum, eða klukkan 17 eigast svo við Tindastóll og KR en eins og fyrr segir sigruðu bæði liðin í 11 leikjum í vetur. Þegar liðin áttust við í DHL höllinni sigruðu KR ingar 72-57 en á Króknum knúðu heimamenn fram sigur 74-70. Keflavík sigraði í bikarkeppni þessa flokks 67-55 en þeir léku til úrslita við FSu sem sendi ekki lið í Íslandsmótið í drengjaflokki þetta árið. Líkt og í 10. flokki er mikil hefð fyrir þessum flokk sem áður hét 3. flokkur. KR hefur oftast orðið Íslandsmeistari eða 6 sinnum en Keflavíkingar kom fast á hæla þeirra með 5 titla.

 

Úrslitaleikirnir fara svo fram á sunnudaginn.

 

Það er um að gera fyrir alla að mæta í Laugardalshöll um helgina og sjá unga og efnilega leikmenn berjast á fjölum Hallarinnar.

 

Á heimasíðu KKÍ er að finna fróðlega grein um úrslit yngri flokka í gegnum tíðina sem Óskar Ó. Jónsson hefur tekið saman.

 

[email protected]

 

Myndir: Jón Björn Ólafsson/karfan.is

 

Fréttir
- Auglýsing -