Þeir félagar Sævaldur Bjarnason og Guðni Hafsteinsson byrja vel með Breiðablik en í kvöld unnu Blikar sinn annan deildarsigur í röð í Iceland Express deild karla þegar Tindastóll kom í heimsókn í fyrsta leik sextándu umferðar. Lokatölur voru 85-77 Blikum í vil. Blikar hafa því unnið báða leiki sína síðan Sævaldur og Guðni tóku við þjálfun liðsins af Hrafni Kristjánssyni.
Jonathan Schmidt var atkvæðamestur í sigurliði Blika í kvöld með 25 stig, 8 stoðsendingar og 11 fiskaðar villur. Hjá Tindastól var Cedric Isom með 32 stig, 8 stoðsendingar og 7 fráköst en aðeins byrjunarliðsmenn Tindastóls skoruðu í leiknum, ekki stig kom af bekknum!
Með sigri sínum í kvöld neita Blikar að missa Fjölnismenn fram úr sér en þess tvö lið deila nú botnsætinu með FSu. Blikar og Fjölnir með 8 stig og ekki langt undan eru Tindastóll og ÍR bæði með 10 stig.
KFÍ og Valur mættust í toppslag 1. deildar karla þar sem Ísfirðingar styrktu stöðu sína á toppnum með öruggum 89-65 sigri.
Ljósmynd/ Úr safni: Jonathan Schmidt í leik gegn ÍR í vikunni. Schmidt var stigahæstur Blika í kvöld.
Nánar síðar…