Fréttir þess efnis að miðherjinn Urald King þyrfti að yfirgefa topplið Tindastóls um óákveðinn tíma sökum persónulegra ástæðna bárust fyrr í vikunni. Staðfesti þjálfari liðsins Israel Martin þetta í samtali við Körfuna. Samkvæmt honum var þá unnið í að finna út hvenær leikmaðurinn muni fara, sem og hvenær hann komi aftur til baka til liðsins.
King mun þó ekki vera farinn enn og verður því í liði Stólana sem taka á móti Njarðvík í Síkinu í kvöld. Staðfestir formaður félagsins Ingólfur Jón Geirsson þetta í samtali við Körfuna. Segir hann ennfrekar að enn sé ekkert komið á hreint með hvenær leikmaðurinn muni fara.
Tindastóll er eitt aðeins þriggja liða sem er taplaust það sem af er tímabili. Hefur King átt stóran þátt í þeirri velgengni, en hann hefur skilað liðinu 24 stigum, 12 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik. Þá er hann framlagshæsti leikmaður deildarinnar að meðaltali í heild, þó nokkuð fyrir ofan Kinu Rochford í öðru sætinu.
Tindastóll tekur á móti Njarðvík kl. 19:15 í fjórðu umferð Dominos deildar karla og mun leikurinn vera í beinni útsendingu hjá Tindastóll Tv.