Nýliðar Hamars/Þórs í Bónus deild kvenna hafa samið við Emmu Sóldísi Svan Hjördísardóttur fyrir yfirstandandi tímabil.
Emma Sóldís er 20 ára bakvörður sem er að upplagi úr KR, en hún hefur einnig leikið fyrir Hauka og Fjölni í efstu deild. Síðan 2023 hefur Emma verið í bandaríska háskólaboltanum með Liberty, en er nú komin heim til Íslands til þess að leika fyrir Hamar/Þór. Á síðustu árum hefur Emma einnig verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands og þá hefur hún leikið fjóra leiki fyrir íslenska A landsliðið.
Tilkynning:
Í dag skrifaði Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir undir samning um félagaskiptir yfir til okkar í Hamar-Þór. Emma Sóldís er tvítugur bakvörður sem býr yfir mikilli reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Emma Sóldís kemur til okkar beint úr bandaríska háskólaboltanum þar sem hún hefur spilað með Liberty í 1,5 ár. Þar áður spilaði hún með Haukum og Fjölni í Subway deildinni ásamt því að vera uppalin í KR. Emma Sóldís hefur einnig spilað með yngri landsliðum Íslands og hefur verið valin í A landslið kvenna. Emma Sóldís er góð skytta, með góðan leikskilning og kraftmikill leikmaður á báðum endum vallarins. Það er því ljóst að Emma Sóldís mun vera mikill styrkur inn í liðið okkar og hlökkum við mikið til að sjá hana spila í Hamar-Þór búningnum. Við þurfum ekki að bíða lengi því fyrsti leikurinn hennar verður þriðjudaginn 17. desember þegar okkar stelpur heimsækja Þór Akureyri.