22:00
{mosimage}
Glæstur árangur Garðbæinga
Hin síðustu ár hefur það verið eitt verst geymda leyndarmál Íslands að Garðbæingar ætli sér stóra og mikla hluti í íþróttum. Nýjasta rósin í hnappagat Stjörnunnar er Subwaybikarmeistaratitillinn í körfubolta sem félagið landaði eftir magnaðan sigur á KR sem allir höfðu spáð að myndu afgreiða þennan úrslitaleik rétt eins og að drekka vatnsglas. Uppgangur Stjörnunnar hefur bæði verið glæstur og skjótur en liðið er aðeins á sínu þriðja ári í úrvalsdeild. Frumraun Garðbæinga var martröð líkust í úrvalsdeild og að henni lokinni tók við smá bið í 1. deild. Þegar liðið svo loks tryggði sér sæti í úrvalsdeild að nýju leiktíðina 2007-2008 var ekki langt að bíða fyrsta stórtitilsins.
Árið 2002 lék Stjarnan fyrst í úrvalsdeild karla sem þá bar nafnið EPSON-deildin. Stjarnan tapaði öllum 22 deildarviðureignum sínum og féll að nýju í 1. deild. Þar voru Garðbæingar til leiktímabilsins 2007-2008 en þá hafði Stjarnan af miklu harðfylgi tryggt sér að nýju sæti á meðal bestu liða landsins. Fyrirkomulagið í 1. deild er þannig að það lið sem er efst eftir deildarkeppnina vinnur sér þátttökurétt í úrvalsdeild og þarf ekki að leika í úrslitakeppni 1. deildar. Liðin í 2.-5. sæti leika í undanúrslitum og svo úrslitum um síðara lausa sætið í efstu deild.
Leiktíðina 2006-2007 var Derrick Stevens þjálfari Stjörnunnar. Á miðri leiktíðinni var hann látinn taka poka sinn og Bragi Magnússon tók við þjálfarastöðunni. Bragi skilaði Stjörnunni í 5. sæti deildarinnar eftir að hann tók við þeim og liðið komst inn í úrslitakeppni 1. deildar. Stjarnan mætti Breiðablik í undanúrslitum og vann fyrsta leik liðanna í Smáranum 81-88. Garðbæingar lágu svo 68-84 í Ásgarði en unnu oddaleikinn í miklum slag 87-96. Liðið mætti svo Valsmönnum í úrslitum um aukasætið í úrvalsdeild og vann Valur fyrsta leikinn 80-77, Stjarnan vann síðan sinn heimaleik 85-70. Oddaleikurinn fór fram í íþróttahúsi Kennaraháskólans þar sem Stjarnan hafði yfirburðasigur 84-100 og komst að nýju upp í úrvalsdeild. Þétt var setið á pöllum íþróttahúss Kennaraháskólans þar sem mikill fögnuður Garðbæinga braust út.
Fyrir úrslitarimmuna við Val fengu Stjörnumenn heimsókn frá fulltrúum aðalstjórnar félagsins þar sem þeim var gefið loforð sem hljóðaði á þennan veg:
,,Ef þið komist upp í úrvalsdeild, þá bjóðum við ykkur á NBA leik!“
Orð aðalstjórnar stóðu og snöggtum eftir mikla rimmu við Valsmenn héldu Garðbæingar áleiðis til Bandaríkjanna í boði aðalstjórnar og fylgdust þar með köppum sem seint þurfa að borga æfingagjöld eða leggja út annan tilfallandi kostnað með íþrótt sinni.
{mosimage}
(Frá undanúrslitum 1. deildar 2006-2007)
Garðbæingar hafa gefið það út að þeir ætli sér fremst á meðal jafningja í íþróttum og er Stjarnan eina félagið sem á karlalið í efstu deildum þeirra fjögurra boltagreina sem keppt er í á Íslandi, körfubolta, handbolta, fótbolta og blaki. Fyrir þá sem vilja telja tennis með sem boltaíþrótt er ofangreind fullyrðing röng en látum slag standa að sinni með stöðu karlaliða Stjörnunnar.
Bragi Magnússon fór síðan með Stjörnuna inn í leiktímabilið 2007-2008 í Iceland Express deildinni þar sem liðið hafnaði í 9. sæti deildarkeppninnar og datt út í 16-liða úrslitum gegn Njarðvík í Lýsingarbikarnum. Minnstu munaði að Stjarnan næði að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni í fyrra, í síðustu umferðinni vann Stjarnan Tindastól í Ásgarði en sökum innbyrðisviðureignar við Þór sem vann Grindavík á sama tíma urðu Garðbæingar að láta sér lynda 9. sætið. Mikil spenna var í Ásgarði en leikur Stjörnunnar og Tindastóls kláraðist um 15 mínútum á undan leik Þórs og Grindavíkur. Vonbrigðin leyndu sér svo ekki þegar Þorsteinn Þorbergsson þáverandi stjórnarmaður hjá Stjörnunni greindi frá úrslitunum að Norðan í hátalarakerfinu í Ásgarði. Engu að síður náðu Garðbæingar að halda sæti sínu í úrvalsdeild og nýtt keppnistímabil í vændum í Iceland Express deild karla leiktíðina 2008-2009.
Bragi Magnússon var áfram við stjórnartaumana hjá Stjörnunni í upphafi leiktíðar 2008-2009. Spilamennska liðsins var fín en liðinu misfórst að vinna fjölmarga leiki og flestir voru þeir af svipuðum toga, Stjarnan lenti undir á lokasprettinum. Liðið byrjaði á því að tapa gegn Grindavík í framlengdum leik með einu stigi og lá svo m.a. gegn toppliði KR með aðeins 9 stiga mun þar sem KR reyndust sterkari á endasprettinum.
{mosimage}
(Bragi Magnússon)
Miðvikudaginn 17. desember kemst það svo í fréttirnar að Stjarnan hafi sagt upp samningi sínum við Braga Magnússon og ráðið Teit Örlygsson sem hans eftirmann. Þrátt fyrir að Garðbæingar væru neðarlega í töflunni við þjálfaraskiptin hafði spilamennska liðsins ekki verið svo slæm eins og ofangreindir leikir gegn Grindavík og KR sanna.
Engum hefur síðan dulist sá árangur sem Teitur Örlygsson hefur náð með Stjörnuliðið undanfarið. Athygli vekur þó að eini tapleikur Stjörnunnar undir stjórn Teits var gegn hans gamla félagi á hans gamla heimavelli í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Koma Teits hefur virkað sem vítamínssprauta á Garðbæinga sem eru vafalítið heitasta lið landsins um þessar mundir. Ekki sést mikil áferðarbreyting á leik liðsins eða leikmönnunum sjálfum en það sem er að gerast er að Stjarnan er nú að vinna þessa jöfnu spennuleiki sem stóðu í þeim framan af leiktíðinni.
Um þessar mundir er Stjarnan í 6. sæti úrvalsdeildar og því inni í úrslitakeppninni eins og sakir standa. Ef svo fer verður það enn eitt sögulega afrekið hjá Garðbæingum þessa leiktíðina. Þó er þessi barátta gríðarlega jöfn þar sem neðan við Stjörnuna koma Breiðablik, ÍR og Tindastóll öll með 14 stig og FSu ekki langt undan með 12 stig. Ofan við Stjörnuna eru svo Njarðvíkingar með 18 stig og því má búast við taugatitrandi endaspretti í deildarkeppninni. Sviptingar til hins betra á gengi Stjörunnar við þjálfaraskipti hafa fengið menn til umhugsunar. Er mögulegt að Stjarnan, hvort sem það eru leikmenn eða stjórn, verði fljótt þreytt á þjálfurum sínum? Alls ekki óviðeigandi spurning í ljósi árangurs félagsins þegar síðustu tvö þjálfaraskipti hafa átt sér stað. Þjálfarastaða Teits Örlygssonar í Garðabæ verður þó líkast til seint endurskoðuð enda stýrði hann liðnu til síns fyrsta stórtitils.
{mosimage}
(Teitur hefur unnið hug og hjörtu Garðbæinga)
Hvað sem raular og tautar þá eru Stjörnumenn bikarmeistarar 2009 og eru vel að sigrinum komnir og hafa margir haft það á orði að sigur Garðbæinga gegn KR hafi verið einhver mesti öskubuskusigur bikarkeppninnar. Hvort það eigi við rök að styðjast eður ei skal ósagt látið en ljóst er að Stjarnan er að ryðja sér til rúms á meðal bestu liða landsins og er vel enda hefur miklu verið til kostað í bæði tíma og peningum hjá þessu unga úrvalsdeildarliði. Teitur Örlygsson er eitt af fjölmörgum stykkjum í púsli Stjörnunnar sem raðað hefur verið vel saman síðustu ár og verður forvitnilegt að fylgjast með Stjörnunni á komandi árum. Félagið hefur til jafns við árangur meistaraflokksins stöðugt verið að spýta í lófana með yngriflokkastarfið og halda nú úti metfjölda yngri flokka hjá félaginu og nokkrir hverjir eru í fremstu röð í sínum árgöngum.
Stjarnan er orðin úrvalsdeildarlið, lið sem hefur fest sig í sessi og gert það nokkuð fljótt og vel. Fyrstudeildarbragurinn er farinn af liðinu og ber árangurinn þess vitni sem og aukinn stuðningur bæjarbúa. Ekki eru þó margir uppaldir leikmenn að láta að sér kveða í stórum stíl en þess er skemmst að bíða.