Valur tekur á móti Tindastól kl. 19:15 á fimmtudagskvöldið í oddaleik um Íslandsmeistaratitilin.
Það sem af er einvígi liðanna hafa þau skipst á að vinna útileikina, þannig að Valur hefur í tvígang unnið í Síkinu og Tindastóll hefur unnið báða leiki sína í Origo Höllinni. Til að bæta enn frekar við þá staðreynd skiptust liðin einnig á útisigrum í deildarkeppni Subway deildarinnar, þannig að hvorugu liði hefur tekist að vinna leik á sínum heimavelli eftir sex viðureignir á tímabilinu.
Miðasala á leiki úrslitaeinvígissins hefur gengið afar vel hjá báðum liðum, þar sem uppselt hefur verið á alla fjóra leikina. Leikur fimmtudagsins verður eðlilega engin undantekning, en samkvæmt heimildum Körfunnar seldust forsölumiðarnir upp á um fimm mínútum eftir að opnað var kl. 14:00 í dag.
Samkvæmt miðasölufærslu félagsins munu miðar í almennri sölu þó ekki verði aðgengilegir fyrr en kl. 14:00 á morgun miðvikudag 17. maí, en þar er tekið fram að sú miðasala sé háð því að einhverjir miðar verði eftir.