spot_img
HomeFréttirUpphitun - Hafnarfjörður vs. Sauðárkrókur

Upphitun – Hafnarfjörður vs. Sauðárkrókur

 

Undanúrslit Dominos deildar karla hefst í kvöld þegar Haukar frá Hafnarfirði taka á móti Tindastól frá Sauðárkróki í fyrsta leik einvígisins. Á morgun mætast svo KR og Njarðvík í einvígi sem margir bíða eftir vegna sögulegra leikja þeirra frá síðasta tímabili.

Einvígi kvöldsins er ekki síður áhugaverðara og munum við skoða liðin og möguleika þeirra hér að í upphitunarumfjöllun.

 

 

Haukar-Tindastóll

 

Undanúrslitin í ár er endurtekið efni frá síðasta ári, sömu lið, eini munurinn er að Haukar hafa hirt heimaleikjaréttinn af Tindastól. Einvígi þessara liða í fyrra fór 3-1 fyrir Tindastól þar sem þeir unnu báða leikina á Ásvöllum. Tindastóll skellti Keflavík úr leik í átta liða úrslitum með þrem sigrum gegn einum, í raun var sigur Tindastóls öruggur og koma því með sjálfstraustið í botni í einvígið.

 

Haukar sem eiga nú heimaleikjarétt unnu Þór Þ. einnig 3-1 í stórskemmtilegu einvígi þar sem allir leikir unnust með litlum mun. Liðið tapaði fyrsta leiknum í einvíginu og hafa reyndar tapað fyrsta leik í öllum einvígjum í úrslitakeppni frá því þeir komust upp í deildina árið 2013, alls fjögur einvígi. Haukar hafa einu sinni orðið Íslandsmeistarar en það var árið 1988 en Tindastóll hefur aldrei unnið þann stóra. Í þrígang hafa Haukar tapað í úrslitum (1985, 1986 og 1993) og í tvígang hafa Stólarnir tapað í úrslitum (2001 og 2015).

 

Liðin mættust tvisvar í deild á tímabilinu og höfðu Haukar sigur í báðum leikjunum. Þá hafa liðin mæst átta sinnum á síðustu tvem árum og hafa bæði lið unnið fjóra leiki. Ótrúlegt er til þess að hugsa að bæði liðin hafa komið uppí deildina á síðustu þrem árum og eru nú meðal fjögurra sterkustu liða í deild þeirra bestu. Uppgangur beggja liða er því mikill og framtíðin björt.

 

Einvígið verður áhugavert fyrir margar sakir. Tveir efnilegustu bakverðir deildarinnar mætast í þeim Kára Jónssyni og Pétri Rúnari Birgissyni, báðir hafa verið frábærir í úrslitakeppninni og er gaman að sjá jafn ungt og spennandi „match-up“.

 

Heimaleikir þessara liða verða dýrir og þá sérstaklega í Síkinu á Sauðárkróki þar sem fá lið hafa farið með sigur.  Haukar mega hreinlega ekki missa einbeitingu í þessu einvígi því ef þeir ætla að moka sig í holu strax í upphafi verður erfitt að koma til baka.

 

Tindastóll er heitasta lið landsins um þessar mundir og hafa verið á svakalegri siglingu þessa dagana. Haukar eru samt sem áður með frábært lið af leikmönnum sem hafa spilað lengi saman og ef þeir halda stemmningunni uppi eru þeir einstaklega óárennilegir.

 

Leikdagar:
 
Leikur 1 Sunnudagur – 3. apríl kl. 19:15 – Haukar-Tindastóll
Leikur 2 Miðvikudagur – 6. apríl kl. 19:15 – Tindastóll-Haukar
Leikur 3 Laugardagur – 9. apríl kl. 19:15 – Haukar-Tindastóll
Leikur 4 Þriðjudagur – 12. apríl kl. 19:15 – Tindastóll-Haukar (ef þarf)
Leikur 5 Föstudagur – 15. apríl kl. 19:15 – Haukar-Tindastóll (ef þarf)

 

 

Haukar

Tölfræði líklegs byrjunarliðs:

Finnur Atli Magnússon – 10,4 stig, 6,9 fráköst, 2,9 stoðsendingar, 17 framlagsstig
Haukur Óskarsson – 13,5 stig, 4,3 fráköst, 2 stoðsendingar, 10 framlagsstig
Kári Jónsson – 17,3 stig, 5,2 fráköst, 5,5 stoðsendingar, 19,7 framlagsstig
Emil Barja – 8,7 stig. 6,7 fráköst, 5 stoðsendingar, 15 framlagsstig
Brandon Mobley – 21,8 stig, 9,9 fráköst, 2 stoðsendingar, 21,8 framlagsstig

 

Hvað þurfa Haukar að gera til að vinna Tindastól?

Vinna fyrsta leik, það er algjört lykilatriði í þessu einvígi. Verkefnið verður svo margfalt erfiðara fyrir Hauka ef þeir ætla að fara í Síkið með tap á bakinu. Liðið hefur sýnt styrk sinn í úrslitakeppninni með því að sigra Þór nokkuð sannfærandi, þeir þurfa því að yfirfæra stemmninguna úr því einvígi í verkefnið framundan.

Margir leikmenn Hauka eru stemminingsleikmenn sem þurfa að fá stemmninguna með sér til að komast í gang. Haukar eru oft full fljótir að missa haus og einbeitingu við mótlæti en það er ekki í boði í þessu einvígi. Tindastóll hefur spilað frábæran varnarleik uppá síðkastið og þarf því sóknarleikur Hauka að bjóða uppá nýjar víddir. Þeir verða að láta boltann ganga á milli og vera gríðarlega þolinmóðir. Mikið af ótímabærum skotum og einhæfni sóknarlega er það sem Tindastóll vill mega Haukar ekki detta í þá gryfju.

 

Mikilvægasti leikmaður.

Það sást bara í einvíginu gegn Þór að Kári Jónsson er mikilvægasti leikmaður Hauka. Manni skortir lýsingarorð til að lýsa þessum gæja. Þrátt fyrir að vera átján ára er hann með haus á við reynslumikinn leikmann. Er tilbúin að taka stóru skotin, rífa liðið sitt áfram og vera aðalmaðurinn.

 

X-factor:

Kristinn Marínósson er líklega einn vanmetnasti leikmaður deildarinnar. Spilar mjög vanþakklátt hlutverk í Haukaliðinu, hálfgerður ruslakarl. Hefur haldið mörgum af betri leikmönnum deildarinnar niðri í leikjum með algjörri yfirburðarvörn. Getur varist mun hávaxnari leikmönnum og er einnig fínn skotmaður sem getur látið til sín taka í sókninni.

 

Tindastóll

Tölfræði líklegs byrjunarliðs:

Myron Dempsey – 16 stig, 5 fráköst, 1 stoðsending, 16 framlagsstig
Pétur Rúnar Birgisson – 9,6 stig, 3,5 fráköst, 5,1 stoðsending. 12 framlagsstig
Darrel Lewis – 20,7 stig, 6,2 fráköst, 4 stoðsendingar, 21,5 framlagsstig
Helgi Rafn Viggósson – 8,5 stig, 6,9 fráköst, 1,9 stoðsendingar, 12,5 framlagsstig
Viðar Ágústsson – 4,9 stig, 3 fráköst, 1 stoðsending, 6,4 framlagsstig.

 

Hvað þarf Tindastóll að gera til að vinna Hauka?

 

Varnarleikur liðsins þarf að halda áfram að vaxa og styrkjast. Ef þeim tekst að ýta Haukum í erfið skot og útúr sínu plani hafa þeir tilhneigingu í að verða einhæfir sóknarlega sem gefur Sauðkrækingum gott tækifæri. José Costa þjálfari Tindastóls hefur sýnt ítrekað í vetur að hann er klókur og hefur fundið leiðir sóknarlega til að koma á óvart og verður það mikilvægt gegn sterkum Haukum.

 

Líklegt er að Brandon Mobley fái svipaða meðferð og Jerome Hill í von um að hann missi hausinn eins og hefur gerst í nánast öðrum hvorum leik hjá kauða. Ruslatalið verður í hávegi haft en þeir mega samt ekki gleyma að spila körfubolta. Sauðkrækingar hafa verið ákaflega duglegir að fjölmenna á leiki og þá er alveg sama hvar á landinu leikurinn fer fram. Stemmningin hjá þeim mun spila mikið inní að búa til umgjörð fyrir Tindastóls liðið að spila að fullri getu og halda áfram að verða heitasta lið landsins í dag.

 

Mikilvægasti leikmaður:

Darrel „Cabernet Sauvignon“ Lewis er mögulega að spila sína síðustu leiki á ferlinum og hefur ekki sýnt á sér neinn bilbug þrátt fyrir að vera kominn á fertugsaldurinn. Frábær leikmaður sem ber Tindastólsliðið á herðum sér. Þarf að spila fyrir liðið og komast í gang því þá gerir hann alla í kringum sig betri og Tindastólsliðið ævintýralega sterkt.

 

X-Factor:

Tindastólshjartað sjálft Helgi Rafn Viggósson, hefur farið upp og niður með liðinu. Upplifað sigra og töp, er væntanlega hungraður að gera aðra tilraun að íslandsmeistaratitlinum í ár og mun hungri og baráttan í kauða vera auka kraftur í liði Tindastóls. Er einnig betri í körfubolta en flestir gera sér grein fyrir og gæti orðið það sem skilur á milli liðanna í þessu einvígi.

 

 

Texti / Ólafur Þór Jónsson

 

Myndir / Axel Finnur Gylfason, Bára Dröfn, Hjalti Árnason

Fréttir
- Auglýsing -