spot_img
HomeFréttirUppgjör 1.-3. umferð: Reynsluminnsti þjálfarinn leiðir deildina!

Uppgjör 1.-3. umferð: Reynsluminnsti þjálfarinn leiðir deildina!

 
Þremur fyrstu umferðunum í Iceland Express deild karla er nú lokið, við höfum séð framlengingar og hasar, leikir í beinni á netinu og Live Stat hjá KKÍ í blússandi fílíng. Þetta er byrjað gott fólk og það sem vekur kannski mesta athygli er að reynsluminnsti þjálfari deildarinnar, Helgi Jónas Guðfinnsson, er á toppnum með Grindavík. Reyndar er Helgi Jónas tveimur leikjum reynslumeiri í brúnni heldur en Örvar Kristjánsson sem tók við Fjölni á dögunum og landaði fyrsta sigri liðsins í gær gegn Hamri, látum fyrirsögnina samt halda sér. 
Eins og fyrr segir er það Grindavík sem leiðir deildina með þrjá sigra og ekkert tap. Gulir hófu vertíðina á því að rassskella Njarðvíkinga 68-84 í Ljónagryfjunni, næsta fórnarlamb var KFÍ, 96-87 og nú á sunnudag vann Grindavík sannfærandi í Síkinu 55-76. Liðið hefur tekið nokkrum stakkaskiptum síðan Ryan Pettinella var fenginn til félagsins. Vafalítið einhverjir þéttustu upphandleggir deildarinnar og hann er ekki bara kjöthleifur í teiginn hjá gulum, 11,3 stig, 12,0 fráköst og 17,7 í framlag – allt þetta í tveimur leikjum svotil nýlentur á Fróni. Happafengur þarna á ferðinni hjá Helga Jónasi.
 
Einhverjir myndu segja að leiktíðin hæfist á rólegu nótunum hjá Grindavík, þ.e. að þeir mæta í fyrstu fimm umferðunum báðum nýliðum deildarinnar, Tindastóli sem spáð var falli og ÍR sem leikur án Eiríks Önundarsonar, Sveinbjarnar Claessen og Kristins Jónassonar. Það er vel hægt að slá ofangreindu föstu en staðreyndin er einfaldlega sú að ekki fæst betur séð en að deildin verði ákaflega jöfn þetta árið og menn verði slítandi stig hér og þar og allstaðar.
 
Sex lið koma á eftir Grindavík með 4 stig, þrjú með 2 stig og á botninum án stiga eru ÍR og Tindastóll. Nýliðar Hauka og KFÍ hafa þegar landað 4 stigum í þremur umferðum og byrja vel, meistaraefni KR féllu á svæðisvarnarprófinu í Hveragerði og Keflavík varð vitni að fyrsta Stjörnusigrinum í Toyota-höllinni, allt þetta og miklu meira í fyrstu þremur umferðunum en við skulum nú líta á efstu menn í tölfræðiþáttunum.
 
Stigaskor:
Andre Dabney, Hamar – 26,3
Ryan Amoroso, Snæfell – 24,7
Semaj Inge, Haukar – 24,7
 
Fráköst:
Gerald Robinson, Haukar – 16
Pavel Ermolinskij, KR – 13,3
Ryan Pettinella, Grindavík – 12
 
Stoðsendingar:
Sævar Ingi Haraldsson, Haukar – 9,3
Pavel Ermolinskij, KR – 8,7
Craig Schoen, KFÍ – 8
 
Stolnir boltar:
Craig Schoen, KFÍ – 5,7
Andre Dabney, Hamar – 4,3
Helgi Rafn Viggósson, Tindastóll – 4
 
Tapaðir boltar:
Justin Shouse, Stjarnan – 6,3
Pavel Ermolinskij, KR – 6,3
Andre Smith, Grindavík – 6
 
Framlag:
Craig Schoen, KFÍ – 34,7
Pavel Ermolinskij, KR – 26
Gerald Robinson, Haukar – 25,7
 
Vítanýting:
Craig Schoen, KFÍ – 100%
Andre Smith, Grindavík – 95,5%
Sean Burton, Snæfell – 85,7%
 
2ja stiga nýting:
Ómar Örn Sævarsson, Grindavík – 68%
Nebojsa Knezevic, KFÍ – 66,7%
Ryan Pettinella, Grindavík – 65%
 
3ja stiga nýting:
Kjartan Atli Kjartansson, Stjarnan – 66,7%
Ryan Amoroso, Snæfell – 60%
Ólafur Már Ægisson, 58,3%
 
Grindavík hefur fengið fæst stig allra liða á sig í deildinni eða samtals 210 stig í þremur leikjum. KR hefur skorað flest stig eða 283 og skora að jafnaði 94,3 stig í leik. Tindastólsmenn fá næstfæst stig á sig allra liða í deildinni eða 81,3 stig í leik en á sóknarenda vallarins gengur hvorki né rekur þar sem þeir skora aðeins 63 stig að meðaltali í leik. Stjörnumenn gefa flestar stoðsendingar í leik eða 23 talsins að jafnaði, KR er með flest fráköst eða 42,67 og KR er einnig með hæsta framlagið eða 103,67 á leik.
 
Næsta umferð hefst sunnudaginn 24. október og lýkur mánudaginn 25. október, leikirnir eru eftirfarandi:
 
24. október
Hamar-Keflavík
KR-Fjölnir
Haukar-Grindavík
 
25. október
ÍR-Tindastóll
Snæfell-KFÍ
Stjarnan-Njarðvík
Ljósmynd/ Hjalti ÁrnasonHelgi Jónas Guðfinnsson messar yfir söfnuði sínum í Síkinu.
 
Fréttir
- Auglýsing -