Framherji nýliða KR í Dominos deild kvenna, Unnur Tara Jónsdóttir, verður ekki meira með á þessu tímabili vegna meiðsla á hnéi. Staðfesti þjálfari liðsins það við Körfuna fyrr í dag. Meiddist hún í leik gegn Breiðablik þann 6. febrúar síðastliðinn og hefur ekki leikið síðan. Í ljós er nú komið að um 2/3 hluta fremra krossbands hennar trosnuðu þegar meiðslin áttu sér stað og verður hún því ekki meira með í vetur.
Vondar fréttir fyrir spútnik-nýliða KR, sem enn eru efstar í deildinni þegar aðeins átta umferðir eru eftir. Unnur verið frábær bæði fyrir þær sem og fyrir íslenska landsliðið í vetur, sem hún var komin aftur í eftir 8 ára fjarveru. Mikilvægur leikmaður á varnarhelming vallarins, sem og hafði hún í 19 leikjum í deildinni í vetur skilað 9 stigum, 6 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik.