Íslandsmeistarar KR hafa orðið fyrir mikilli blóðtöku í kvennakörfunni því besti leikmaður úrslitakeppninnar síðasta vor, Unnur Tara Jónsdóttir, er á leiðinni í læknanám til Ungverjalands. Unnur Tara hefur mikinn metnað í náminu og ákvað að sækja um í ungverskum læknaskóla þegar ljóst var að hún komst ekki að í Háskóla Íslands. Kemur þetta fram á Vísir.is
Unnur Tara fór á kostum í úrslitakeppninni þar sem hún var með 19,9 stig að meðaltali í leik þar á meðal skoraði hún 27 stig og hitti úr 8 af 9 skotum sínum þegar KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Hamar í hreinum úrslitaleik um titilinn.
„Ég er að fara til Ungverjalands 20. ágúst en þetta var mjög erfið ákvörðun. Ég var ekki alveg viss en ég hélt að ég myndi sjá eftir því ef að ég myndi allavega ekki prófa í það minnsta eitt ár," segir Unnur sem ætlaði að spila með læknanáminu hér heima en er ekki viss hvernig málin þróast núna.
„Ég ætla að sjá til hvað námið er erfitt áður en ég athuga hvort ég get eitthvað verið að æfa þarna úti. Ég hef heyrt að fyrsta árið sé mjög erfitt úti þannig að ég efast um að það verði einhver körfubolti hjá mér fyrr en á öðru ári," segir Unnur Tara og bætir við:
„Ég horfi bara á Signýju og þá veit ég að ég á nóg eftir. Ég ætla ekkert að hætta og hef stefnuna á að ná einhvern tímann inn í fimm manna úrsvalsliðið á lokahófinu. Ég hætti ekki fyrr en ég næ því," segir Unnur Tara en játar því að það verði erfitt fyrir hana að yfirgefa KR-liðið.
Signý Hermannsdóttir hefur ekki gefið það út hvort hún haldi áfram að spila með KR en Unnur Tara hefur trú á því að Signý haldi áfram. „Mig langaði rosalega mikið að reyna að verja titilinn með KR og taka þennan bikarmeistaratitil líka. Það er svolítið fúlt að sleppa því. Það skiptir samt engu máli fyrir KR þótt ég fari því þær eru með svo öflugt lið. Það kemur alltaf maður í manns stað og þetta verður í góðu lagi sérstalega ef að Signý heldur áfram," segir Unnur hógvær.
Mynd: Unnur Tara í úrslitaleiknum gegn Hamri á síðustu leiktíð.