Flestir guttar vilja Star Wars búninga eða vera skáldaðar ofurhetjur á Öskudag. Ekki Gísli Þór. Hann sættir sig við ekkert nema raunverulegar ofurhetjur og dugar þá ekkert minna en Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR í Domino's deildinni.
Mynd sem birtist af Gísla í KR búningi, númer 4 að sjálfsögðu, með alskegg málað á andlitið og haldandi á körfubolta vakti athygli og aðdáun hjá bakverðinum úr vesturbænum.
"Get lagt skóna á hilluna sáttur með farinn veg eftir að ég sá þessa mynd í dag. Fyrsti og hugsanlega í eina skiptið sem ég mun vera fyrirmynd einhvers þegar kemur að vali á öskudagsbúning," skrifaði Brynjar í færslu ásamt mynd á Fésbókarvegginn sinn.
Gísli er leikmaður minnibolta 11 ára hjá KR og er vafalítið framtíðarleikmaður meistaraflokks. Aðspurður um hvort þetta sé ekki gott veganesti í Höllina um helgina sagði Brynjar í stutt spjalli við Karfan.is: "Þetta veitir mér mikla hvatningu!"
KR mætir Þór Þorlákshöfn í úrslitum Powerade bikarsins á laugardaginn í Laugardalshöll kl. 16:30.