spot_img
HomeFréttirUndir 20 ára konur öruggar áfram í 8 liða úrslitin þrátt fyrir...

Undir 20 ára konur öruggar áfram í 8 liða úrslitin þrátt fyrir tap gegn Noregi

Undir 20 ára kvennalið Íslands mátti þola tap fyrir Noregi í síðasta leik riðlakeppninnar á Evrópumótsins í Craiova, 54-45.

Noregur leiddi nánast allan leik dagsins, en Ísland var aldrei langt undan. Munurinn fyrir lokaleikhlutann var aðeins 2 stig, eftir því sem leið á hann náði Noregur ágætistökum á leiknum og sigldi að lokum 9 stiga sigur í höfn.

Atkvæðamest fyrir Ísland í leiknum var Tinna Guðrún Alexandersdóttir með 21 stig og 5 fráköst. Þá skilaði Eva Wium Elíasdóttir 8 stigum, 6 fráköstum, 4 stoðsendingum, 3 stolnum boltum og Agnes María Svansdóttir var með 8 stig og 3 fráköst.

Íslenska liðið var taplaust fyrir leik dagsins og hafði þegar tryggt sig áfram í 8 liða úrslit keppninnar. Noregur eru enn taplausar og eiga einn leik eftir gegn Austurríki, líklegt er að þær vinni þann leik og mun Ísland því líklega enda í 2. sæti riðilsins. Í 8 liða úrslitunum munu þær því mæta efsta liðinu úr riðli C, sem verður eitt af Hollandi, Slóveníu eða Króatíu, en sá leikur fer fram komandi föstudag 4. ágúst.

Tölfræði leiks

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -