Undir 20 ára karlalið Íslands lagði Noreg nokkuð örugglega í dag á Norðurlandamótinu í Södertalje, 104-86. Ísland fer því með tvo sigra úr þriggja liða riðil sínum og leika næst á laugardaginn í undanúrslitum mótsins.
Fyrir leik
Bæði lið höfðu spilað við Svíþjóð fyrir leik dagsins, Ísland hafði unnið þá nokkuð örugglega, en Noregur tapað naumlega.
Byrjunarlið Íslands
Tómas Valur, Ágúst Goði, Ólafur Ingi, Orri og Almar Orri.
Gangur leiks
Ísland nær strax á upphafsmínútunum ágætistökum á leiknum. Leiða með 12 stigum eftir fyrsta leikhluta, 24-12, þar sem hvorki fleiri né færri en 7 leikmenn íslenska liðsins voru komnir á blað í stigaskorun. Með nokkuð sterku áhlaupi í upphafi annars leikhlutans nær Noregur að komast aftur inn í leikinn og er munurinn aðeins 2 stig þegar um 5 mínútur eru til hálfleiks, 31-29. Með herkjun nær Ísland þó áfram að vera skrefinu á undan út annan leikhlutann, en þegar liðin halda til búningsherbergja er munurinn 4 stig, 46-42.
Stigahæstur fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Tómas Valur Þrastarson með 10 stig og Orri Gunnarsson var kominn með 8 stig.
Líkt og í upphafi leiks nær íslenska liðið góðu áhlaupi í byrjun seinni hálfleiksins. Eru komnir 13 stigum yfir þegar um 5 mínútur eru eftir af þriðja leikhlutanum, 64-51. Enn ganga þeir svo á lagið undir lok fjórðungsins og eru svo gott sem komnir með sigur í hendurnar fyrir lokaleikhlutann, 81-61. Lokamínútur leiksins voru ekkert sérstaklega spennandi, Ísland hélt fengnum hlut fram undir miðbygg leikhlutans, 91-71 og vinna að lokum mjög örugglega, 104-86.
Atkvæðamestir
Tómas Valur Þrastarson var bestur í liði Íslands í dag með 23 stig, 2 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Honum næstur var Orri Gunnarsson með 21 stig og 10 fráköst.
Hvað svo?
Liðunum sex í keppninni var skipt upp í tvo riðla og þar sem Ísland náði að vinna sinn riðil sitja þeir hjá á morgun og mæta næst því liði sem vinnur umspil riðils A í undanúrslitaleik komandi laugardag 1. júlí kl. 16:00.
Myndasafn (Gunnar Jónatansson)
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil