Undir 20 ára karlalið Íslands mátti þola tap í dag fyrir Danmörku í úrslitaleik Norðurlandamótsins í Södertalje, 92-67. Í heild náði liðið að vinna alla leiki sínu á mótinu nema úrslitaleikinn, en í honum leiddi Danmnörk nánast frá upphafi til enda.
Fyrir leik
Báðum liðum hafði gengið nokkuð vel það sem af er móti. Ísland var enn taplaust og hafði lagt lið Eistlands í undanúrslitunum á meðan að Danmörk var einnig taplaust og höfðu lagt Finnland í undanúrslitum.
Byrjunarlið Íslands
Ágúst Goði, Tómas Valur, Ólafur Ingi, Orri og Almar Orri.
Gangur leiks
Ísland kom af miklum krafti inn í leik dagsins. Skoruðu fyrstu 8 stigin, en Danir voru fljótir að ná áttum, jöfnuðu leikinn og voru komnir 5 stigum yfir þegar fyrsti leikhluti var á enda, 24-19. Þeir eru svo áfram með góð tök á leiknum undir lok fyrri hálfleiksins, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn 6 stig, 48-42.
Ágúst Goði Kjartansson var stigahæstur fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum með 10 stig, en honum næstur var Elías Pálsson með 8 stig.
Íslenska liðið fer illa að ráði sínu í upphafi seinni hálfleiksins. Bæði spila þeir frekar lélega vörn ogeiga erfitt með að setja stig á töfluna á sóknarhelmingi vallarins. Munur Danmerkur kominn í 19 stig fyrir lokaleikhlutann, 72-53. Ísland nær svo í raun aldrei að gera þetta að leik í lokaleikhlutanum og niðurstaðan er að lokum sanngjarn sigur Danmerkur, 92-67.
Að leik loknum voru þeir Almar Orri Atlason og Orri Gunnarsson valdir í 5 manna úrvalslið mótsins, en það er valið af þjálfarateymum liða mótsins.
Atkvæðamestir
Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Ágúst Goði Kjartansson með 14 stig, 5 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Honum næstur var Elías Bjarki Pálsson með 14 stig og Almar Orri Atlason skilaði 4 stigum, 9 fráköstum og 2 vörðum skotum.
Hvað svo?
Undir 20 ára liðið heldur beint til Krítar, þar sem þeir munu taka þátt í A deild Evrópumótsins næstu vikurnar.
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil