Undir 18 ára stúlknalið Íslands lagði Dani í kvöld á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 53-85. Liðið hefur því unnið fyrstu tvo leiki sína á mótinu, en í gær lögðu þær Noreg. Næst leika þær á morgun gegn Eistlandi.
Gangur leiks
Liðin skiptust á snöggum áhlaupum í fyrsta leikhlutanum, en fyrir þann annan var allt jafnt, 13-13. Íslenska liðið varð þó nokkuð fámennt á þessum fyrstu mínútum, ljóst var rétt fyrir leik að Jana Falsdóttir myndi ekki taka þátt í leiknum vegna meiðsla í leik gærdagsins og þá meiddist Hekla Eik Nökkvadóttir í upphafi þessa leiks, svo aðeins 10 leikmenn Íslands eftir í leiknum. Með nokkrum frábærum körfum frá Emmu Sóldísi Hjördísardóttur nær Ísland að sigla framúr Dönum í upphafi annars leikhlutans. Eru mest 8 stigum yfir, en fyrir lok hálfleiksins ná Danir að laga stöðuna. Stál í stál þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 27-27.
Með virkilega öflugum varnarleik og meðal annars þremur þristum frá Emmu Hrönn Hákonardóttur keyrir íslenska liðið yfir þær Dönsku í þriðja leikhlutanum. Vinna fjórðunginn 27-14 og eru 13 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 41-54. Í þeim fjórða halda þær svo uppteknum hætti, leit ekki út fyrir að Danir væru með mikið af svörum í kvöld. Niðurstaðan að lokum gífurlega öruggur íslenskur sigur, 53-85.
Atkvæðamestar
Emma Sóldís Hjördísardóttir var atkvæðamest fyrir Ísland í dag með 25 stig og 5 stolna bolta. Henni næst var Emma Hrönn Hákonardóttir með 17 stig og 4 stoðsendingar.
Kjarninn
Íslenska liðið kom gífurlega vel stemmt inn í seinni hálfleikinn og lögðu þar grunninn að þessum góða sigri. Börðust eins og ljón frá byrjun til enda og voru duglegar að bæði finna réttu skotin sóknarlega og setja þau.
Hvað svo?
Næst leikur liðið kl. 17:45 að íslenskum tíma á morgun gegn Eistlandi.