spot_img
HomeFréttirUndir 18 ára lið drengja vann til bronsverðlauna á Norðurlandamótinu í Södertalje...

Undir 18 ára lið drengja vann til bronsverðlauna á Norðurlandamótinu í Södertalje – Kristján Fannar í úrvalsliðinu

Undir 18 ára drengjalið Íslands mátti þola tap í dag fyrir Svíþjóð í lokaleik sínum á Norðurlandamótinu í Södertalje, 73-66. Leikurinn var jafn og spennandi nánast allan tímann, en undir lokin var það Svíþjóð sem náði að vera skrefinu á undan og vann. Árangur Íslands þó ekki alslæmur, en liðið vann þrjá leiki, tapaði tveimur og hafnaði í 3. sæti mótsins.

Fyrir leik

Engin úrslitakeppni í keppni undir 18 ára drengja á Norðurlandamótinu, en Ísland var efst í riðlinum fyrir leikinn með þrjá sigra og eitt tap og hefðu þeir því með sigri getað tryggt sér titilinn.

Í lið Íslands í dag vantaði Friðrik Leó Curtis, en hann þurfti frá að hverfa fyrir lokaleikinn til þess að geta tekið þátt í verkefni í Bandaríkjunum. Munaði um minna fyrir íslenska liðið, en hann hafði verið einn af betri leikmönnum mótsins til þessa.

Byrjunarlið Íslands

Lars Erik, Þórður Freyr, Hilmir, Kristján Fannar og Brynjar Kári.

Gangur leiks

Leikurinn var í miklu jafnvægi á uphhafsmínútunum. Svíþjóð náði þó að vera skrefinu á undan, voru mest 8 stigum yfir í fyrsta leikhluta, en þegar hann var á enda leiddu þeir með 3 stigum, 18-15. Undir lok fyrri hálfleiksins er svo komið að Íslandi að vera skrefinu á undan. Ná mest að komast 6 stigum yfir í öðrum fjórðung, en missa það niður og eru 4 stigum undir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-30.

Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Viktor Lúðvíksson, Brynjar Gunnarsson og Birgir Halldórsson, allir með 6 stig.

Svíþjóð nær áfram að vera á undan í upphafi seinni hálfleiksins. Ekki miklu má þó muna á liðunum í þriðja fjórðungnum, en þegar hann endar er Svíþjóð 3 stigum yfir, 50-47. Í fjórða leikhlutanum skiptust liðin í ein fimm skipti á forystunni, en á lokamínútunum nær Svíþjóð góðu áhlaupi, Ísland nær ekki að koma til baka. Að lokum vinnur Svíþjóð leikinn með 7 stigum, 73-66.

Eftir að leik lauk var Kristján Fannar Ingólfsson valinn í fimm manna úrvalslið mótsins, en það er valið af þjálfarateymum þeirra liða sem taka þátt.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Birkir Hrafn Eyþórsson með 13 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Honum næstur var Viktor Jónas Lúðvíksson með 11 stig, 6 fráköst og 2 varin skot.

Hvað svo?

Næst á dagskrá er Evrópumót hjá undir 18 ára drengjum, en þeir fara til Portúgals að keppa nú 20. til 30. júlí.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -