Undir 18 ára drengjalið Íslands lagði Danmörku í dag á Norðurlandamótinu í Södertalje, 79-70. Bæði voru liðin taplaus fyrir leik dagsins, hvort um sig með tvo sigra, en Ísland er því eitt á toppnum eftir leikinn með þrjá sigra í jafn mörgum leikjum.
Fyrir leik
Bæði unnu liðin fyrstu leiki sína á mótinu. Ísland lagði Noreg með 36 stigum og svo Eistland með 15 stigum í gær. Danmörk byrjaði hinsvegar á að vinna Finnland með 7 stigum áður en þeir lögðu Svíþjóð í gær með 14 stigum.
Byrjunarlið Íslands
Hilmir, Friðrik Leó, Þórður Freyr, Kristján Fannar og Hallgrímur Árni.
Gangur leiks
Leikurinn fer nokkuð fjörlega af stað. Liðin skiptast í þónokkur skipti á forystunni í fyrsta fjórðung sem endar 20-16 Íslandi í vil, en mikið fór sóknarlega fyrir Kristjáni Fannari og Friðriki Leó á þessum upphafsmínútum. Danir ná svo góðum tökum á leiknum í upphafi annars leikhlutans, vantar helling upp á ýgi Íslands þar sem trekk í trekk þeir gefa eftir sóknarfráköst varnarlega og tapa boltanum sóknarlega. Ná þó góðri lokamínútu og fara aðeins þremur stigum undir til búningsherbergja í hálfleik, 34-37.
Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Kristján Fannar með 10 og Friðrik Leó með 8 stig.
Ísland kemst aftur í forystu á fyrstu andartökum þriðja leikhlutans og ná í seinni hluta fjórðungsins að skapa sér smá bil, mest 8 stig þegar hlutinn er á enda, 58-50. Ísland heldur svo uppteknum hætti í upphafi lokafjórðungsins og eru komnir 11 stigum yfir þegar fimm mínútur eru til leiksloka, 71-60. Undir lokin gera þeir svo vel að verjast annars álitlegu áhlaupi Dana. Niðurstaðan að lokum sterkur sigur Íslands, 79-70.
Atkvæðamestir
Atkvæðamestir fyrir Ísland í leiknum voru Kristján Fannar Ingólfsson með 21 stig, 4 fráköst, 3 stolna bolta og Friðrik Leó Curtis með 13 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar.
Hvað svo?
Íslenska liðið fær frí á morgun föstudag, en mætir Finnlandi komandi laugardag 1. júlí kl. 11:30.
Myndasafn (Gunnar Jónatansson)
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil