Undir 16 ára drengjalið Íslands vann sinn þriðja leik í röð í dag á Norðurlandamótinu í Kisakallio gegn Eistlandi, 98-63. Liðið því orðið öruggt með að vinna allavegana bronsverðlaun á mótinu, en leikir gegn Svíþjóð á morgun og Finnlandi á sunnudag munu skera úr um hvort liðið nær að vinna fyrstu, önnur eða þriðju verðlaun á mótinu.
Gangur leiks
Íslensku drengirnir tóku öll völd á vellinum í fyrsta leikhlutanum. Með gífurlega ábatasamri pressuvörn náðu þeir að neyða Eistland til þess að tapa boltanum trekk í trekk á sínum eigin vallarhelming og Ísland gerði vel í að búa sér til stig úr þeim. Staðan eftir þann fyrsta 28-14. Undir lok fyrri hálfleiksins láta drengirnir svo kné fylgja kviði og eru komnir 22 stigum á undan þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 46-24.
Ísland heldur uppteknum hætti í upphafi seinni hálfleiksins. Setja forystu sína mest í 28 stig í þriðja leikhlutanum, en Eistar ná að svara því að einhverju leyti og er munurinn 20 stig fyrir lokaleikhlutann, 68-48. Ísland setur fótinn svo aftur á bensíngjöfina í fjórða leikhlutanum og uppskera að lokum mjög svo öruggan 35 stiga sigur, 98-63.
Atkvæðamestir
Birkir Hrafn Eyþórsson var atkvæðamestur í liði Íslands í dag með 21 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Honum næstur var Viktor Jóna Lúðvíksson með 13 stig, 6 fráköst, 4 stolna bolta og 2 varin skot.
Kjarninn
Ísland var nokkuð augljóslega með betra liðið í dag. Drengirnir gerðu þó vel bæði í að sýna það, sem og koma í veg fyrir að Eistland ætti á nokkrum tímapunkti færi á að komast inn í leikinn. Þrír sigrar komnir í jafn mörgum leikjum hjá liðinu, sem hið minnsta vinna bronsverðlaun á þessu móti. Áhugavert verður að sjá hvernig þeim gengur á móti Svíþjóð á morgun og Finnlandi í síðasta leik mótsins á sunnudaginn.
Hvað svo?
Næsti leikur drengjanna er kl. 12:45 á morgun að íslenskum tíma gegn Svíþjóð.