Undir 15 ára lið Íslands máttu bæði þola tap í fyrstu leikjum sínum á opnu Norðurlandamóti í Kisakallio í Finnlandi í dag.
Undir 15 ára lið stúlkna tapaði sínum leik gegn heimastúlkum í Finnlandi. Finnska liðið var með tögl og haldir allt frá fyrstu mínútu í leiknum og undir lokin var sigur þeirra gríðarlega öruggur, 76-42. Atkvæðamest fyrir Ísland í leiknum var Ísey Ísis Guttormsdóttir-Frost með 11 stig, 10 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Þá var Helga Björk Davíðsdóttir með 8 stig, 6 fráköst og Inga Lea Ingadóttir með 8 stig, 8 fráköst og 4 stolna bolta.
Líkt og hjá stúlkunum var á brattann að sækja gegn Finnlandi hjá drengjunum. Finnska liðið var með góð tök á leiknum allt frá upphafi hans, leiddu með 10 stigum eftir fyrsta leikhluta, 13 stigum í hálfleik og með 30 stigum fyrir lokaleikhlutann. Niðurstaðan að lokum var öruggur sigur heimadrengja, 73-48. Atkvæðamestur í íslenska liðinu var Steinar Rafn Rafnarsson með 17 stig og 6 fráköst. Þá var Benóní Stefán Andrason með 7 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar og Almar Orri Jónsson með 8 stig og 3 fráköst.
Bæði leika liðin næst á morgun mánudag gegn Þýskalandi. Leikur U15 stúlkna er kl. 09:00 að íslenskum tíma og drengirnir leika kl. 11:15.