Í kvöld hefjast undanúrslitin í ACB deildinni á Spáni og eru það Jón Arnór Stefánsson og félagar í CAI Zaragoza sem ríða á vaðið er þeir heimsækja stórlið Real Madrid. Það er svo sannarlega brekka framundan hjá Zaragoza en Real Madrid er á meðal sterkustu félagsliða heims!
Viðureign liðanna hefst kl. 21:00 að staðartíma eða kl. 19:00 að íslenskum tíma. Madrídingar fóru 2-0 í gegnum 8-liða úrslitin þar sem þeir mættu Blusens Monbus en Zaragoza fór 2-1 í gegnum 8-liða úrslitin eftir magnaða seríu gegn Valencia. Hin undanúrslitaviðureignin er millum Gran Canaria og Barcelona og hefst hún annað kvöld.
Eins og lög gera ráð fyrir mættust Zaragoza og Real Madríd í tvígang í deildarkeppninni, fyrst á heimavelli Madrídinga sem unnu þann leik 94-79. Jaycee Carroll var stigahæstur í þeim leik hjá Real Madrid með 18 stig en Jón Arnór skoraði 8 stig fyrir Zaragoza. Í öðrum leiknum mættust liðin á heimavelli Zaragoza þar sem Madrid hafði 9 stiga útisigur, 75-84. Jón Arnór gerði 4 stig í þeim leik á meðan Mirza Begic setti 20 fyrir Madrid.
Þetta er í fyrsta sinn sem Jón Arnór kemst í undanúrslit á Spáni en Zaragoza hafnaði í 10. sæti ACB deildarinnar á síðustu leiktíð og komst ekki í úrslitakeppnina.
Tengt efni: