spot_img
HomeNeðri deildir2. deild karlaUnbroken höllin enn Unbroken: Aþena/Leiknir hafði betur gegn Álftanes

Unbroken höllin enn Unbroken: Aþena/Leiknir hafði betur gegn Álftanes

Það var á fullu tungli síðastliðið föstudagskvöld sem lið Aþenu/Leiknis tók á móti liði Álftanes B í Unbroken-höllinni – staðurinn sem heimamenn og ugla Aþenu hafa verndað með kjafti og klóm allt tímabilið. Fyrir leikinn vermdi Aþena/Leiknir toppsæti deildarinnar með 6 sigra og 1 tap á meðan Álftanes B sat í því sjötta með 3 sigra og 4 töp.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti og var um sannkallaða flugeldasýningu að ræða. Bæði lið hittu vel og skiptust á körfum í upphafi leiks en Álftanes var þó skrefinu á undan fyrri part leikhlutans undir forystu Arnórs og Magnúsar.

Á síðustu mínútum 1.fjórðungs snéru heimamenn vörn í sókn með 12-0 áhlaupi og náðu forskoti sem þeir létu aldrei af hendi það sem eftir lifði leiks (þótt tæpt hafi það staðið síðar í leiknum!). Hiti færðist fljótt í leikinn en bæði lið fengu tæknivillu fyrir rifrildi þegar fór að styttast í annan enda fyrsta fjórðungs og því ljósara en mánaskin að áhrifa fulls tungls gætti í báðum liðum.

Leikhlutinn fyrsti endaði svo á frábæru 4 stiga fléttu Ingimundar í liði gestanna með frábæru skoti langt utan af velli – og var staðan að leikhluta loknum 36-30 Leikni í vil.

Vésteinn, sem hafði skorað lokakörfu Leiknis í 1.leikhluta, bætti um betur í upphafi þess annars og setti 5 fyrstu stigin á töfluna. Aþenu-/Leiknismenn náðu yfirhöndinni í leiknum er leið á annan leikhlutann og komu muninum mest upp í 17 stig.

Loks hægðist nokkuð á stigaskorun beggja liða er og var staðan að loknum fyrri hálfleik 57-43 fyrir gestgjafa.

Í upphafi síðari hálfleiks virtist ætla að stefna í sama far og í leikhlutanum á undan – heimamenn settu 2 einfaldar körfur eftir fallegar fléttur af vaggi og veltu og komu muninum upp í 18 stig.

Við tók aftur á móti áhlaup frá Álftanes sem skoruðu næstu 11 stig leiksins- þar af tvo regnbogaþrista frá honum Ingimar sem setti alls 5 slíka í leiknum. Ljóst var að Álftnesingar væru hvergi nærri að missa móðinn.

Jafnvægi milli liðanna gætti næstu mínúturnar og hélst munurinn milli liðanna í um 10 stigum framan af leikhlutanum – en undir lok þriðja tók við enn eitt áhlaup Álftnesinga sem komu þar með muninum niður í 3 stig – og allt þar með í járnum fyrir lokaleikhlutann!

Eldræða frá þjálfara Leiknismanna í leikhlutaskiptahléi kom þó í veg fyrir allt fát af þeirra hálfu og hófu þeir leikhlutann af mikilli yfirvegun; hægðu á leiknum og settu fyrstu körfur síðasta leikhlutans. Álftanes reyndi að koma hraðanum upp og með þremur snöggum körfum í röð náðu þeir að minnka muninn niður í 1 stig – og ætlaði því allt um koll að keyra í Unbroken höllinni.

Eftir sem virðist hafa verið frábært leikhlé Leiknis tóku heimamennirnir Vésteinn og Guðjón málin í sínar hendur sóknarlega og með tveimur þristum frá þeim félögum og einni körfu frá Djamma eftir tröllasóknarfrákast komst Aþena/Leiknir aftur í 10 stiga forskot. Að því búnu var komið að Leiknismanninum Elvari sem skoraði 8 stig í röð fyrir heimaliðið; 2 þrista og eitt hraðaupphlaupssniðskot.

Í stöðunni 106-92 fóru Álftanes að pressa með ágætis árangri sem dugði þó ekki til – að lokum var það lurkabolti Leiknis sem skóp sigurinn og voru lokatölur 110-102 heimamönnum í vil.

Stigaskor Aþenu/Leiknis;

Djammi 24, Vésteinn 23, Elvar 22, Guðjón og Þröstur 11, Einar 10 og Ingvi 9 – aðeins 7 leikmenn Leiknis sem komust á blað í þetta skiptið

Stigaskor Álftanes B;

Ingimundur 27, Magnús 24, Ingimar 23, Arnór 18, Leifur 7 og Ingvi 3

Greiningadeildin:

  • Unbroken höllin er ennþá ósigruð á tímabilinu – og er ‚Sjötti maðurinn‘, stuðningssveit Lurkanna farinn að slá svo mikið um sig að heyrst hefur að því sé haldið fram að heimavöllurinn í Efra Breiðholti sé erfiðari en hjá Vestra á Ísafirði.
  • Álftanes er fyrsta liðið á tímabilinu til að komast yfir 100 stig gegn þéttri vörn Leiknismanna – sem ber marks um öflugan sóknarleik Álftnesinga.
  • Að sama skapi er þetta fyrsti leikurinn á tímabilinu þar sem Lurkaboltinn brýtur 100 stiga múrinn – enda var varnarleikur beggja liða jafn lítið fyrir augað og sóknarleikurinn var mikið fyrir augað.
  • Enn og aftur virðist það vera að breidd Leiknismanna sé lykillinn að árangri liðsins á tímabilinu – í þessum leik voru það Djammi, Vésteinn og Elvar sem tóku yfir stigaskorið með frábærri frammistöðu.
  • Það veldur þó ugg að engar nánari fregnir berast úr herbúðum Leiknismanna hvað varða meiðsli hjá Lásinum, Tómasi Tómassyni, Halldóri Halldórssyni og Þorbergi Ólafssyni.
  • Fyrir þá sem mættu á leikinn eða skoðuðu skýrsluna voru Álftnesingar 7 í hóp og verður því að gefa þeim sérstaka virðingu fyrir sýnda hörku í þessari viðureign.

Staðan í deildinni

Fréttir
- Auglýsing -