spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Vörn Fjölnisstúlkna skilaði öruggum sigri

Umfjöllun: Vörn Fjölnisstúlkna skilaði öruggum sigri

ÍR tók á móti Fjölni í Hertz-hellinum í gærkvöldi í 1. deild kvenna. Gestirnir voru miklu öruggari í leiknum og tóku örugga forystu strax frá fyrstu mínútu sem þær létu aldrei af hendi. Leikurinn fór að lokum 39-78, Fjölnisstúlkum í vil.
 

Frá fyrstu mínútu virtust Fjölnir hafa tögl og haldir í leiknum og það eina sem gekk upp í sókn ÍR-inga var Hanna Þráinsdóttir, en hún skoraði öll stig síns liðs í fyrsta leikhlutanum. Hjá Fjölni skoruðu 7 leikmenn í fyrsta leikhlutanum og liðið virtist vel spilandi. Eftir 10 mínútur var staðan orðin 9-20 gestunum í vil. Fjölnisstúlkur settu í pressuvörn í öðrum leikhlutanum sem skilaði sér í mörgum mistökum hjá heimamönnum og á tímabili tókst ÍR-ingum ekki að setja upp eina einustu sókn. Grafarvogsstúlkunum tókst að auka muninn í 20-39 fyrir hálfleikshléið með þessu móti og ljóst að á brattann væri að sækja hjá Breiðhyltingum.

ÍR-ingar áttu álíka leikhluta í seinni hálfleiknum og í upphafi leiksins, en þær skoruðu ekki 10 stig í þriðja leikhlutanum og öll stigin komu frá Hönnu. Fjölnir voru ennþá að fá stigaskor úr öllum áttum og fjórðungnum lauk 28-56. Heimaliðið virtist alveg andlaust þegar komið var í seinasta leikhlutann og skoruðu 11 stig í honum gegn 24 stigum Fjölnis. Leiknum lauk eins og áður sagði 39-78, Fjölni í vil.
 

Þáttaskil

Pressuvörnin hjá Fjölni í öðrum leikhlutanum virðist hafa komið ÍR-ingum á óvart og þeim gekk mjög illa að leysa hana, enda töpuðu þær 8 boltum á fimm mínútna kafla og gestirnir voru duglegar að refsa fyrir mistökin með hraðaupphlaupskörfum (Fjölnir skoraði 31 stig úr töpuðum boltum í leiknum). 10 stig í röð rétt fyrir hálfleik var reiðarslagið sem virðist hafa útkljáð leikinn. ÍR voru ekki betri í seinni hálfleik og ljóst að þær töldu niðurstöðuna liggja fyrir.
 

Hetjan

Það var engin sérstök hetja í Fjölnisliðinu, liðsheildin var gífurlega sterk og engin leikmaður skoraði meira en 13 stig. Góð samvinna innan liðsins var hetja kvöldsins.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Í kvöld voru Fjölnisstúlkur með betri tölur í öllum flokkum. Þær fráköstuðu betur, hittu betur, töpuðu færri boltum, stálu fleiri boltum og vörðu fleiri skot. Heildarframlag Fjölnis í leiknum var 100 stig á móti einungis 20 hjá ÍR. Engin í liði ÍR fyrir utan Hönnu Þráins skoraði meira en eina körfu utan af velli.
 

Kjarninn

Fjölnisstúlkur voru ekki komnar lengur en raun bar vitni í fyrstu viðureign þessara liða í upphafi tímabilsins. Nú eru þær búnar að bæta við sig leikmönnum, æfa saman lengur og eru að sýna öllum að það eru þrjú topplið í deildinni. ÍR eru nú búin að tapa öðrum leiknum sínum á heimavelli þar sem þær skora helming þess sem hitt liðið skorar (töpuðu 49-98 gegn KR fyrir tæpum mánuði síðan). Aðrir leikir þeirra hafa mest tapast með 12 stigum. Það er erfitt að festa fingur á hvað sé að valda nákvæmlega svona afhroðum á heimavellinum, en þær verða að þurrka út svona frammistöður ef að þær vilja verða hærri í deildinni.
 

Tölfræði leiksins
Myndasafn: Bára Dröfn
 
Viðtöl eftir leikinn:
Ólafur Jónas: Það vantaði bara að þora þessu
Sævaldur: Lögðum okkur virkilega vel fram í vörninni og uppskárum eftir því
 
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir
Fréttir
- Auglýsing -