Í kvöld fór fram fjórði leikur Vals og Keflavíkur um íslandsmeistaratitilinn. Valur leiddi einvígið 2-1 og náðu svo að klára þennan leik og tryggja sér titilinn. Keflavík var þó betra liðið þó jafnt væri nánast allan leikinn.
Það var gríðarleg stemming á pöllunum, vel mætt og allir vel með á nótunum. Bæði hjá Val og Keflavík. Það var ljóst að taugarnar voru þandar, liðunum gekk ekkert vel að skora til að byrja með, Keflavík byrjaði þó betur og setti niður fyrstu tvær körfur leiksinsj áður en Valur svaraði. Leikhlutinn var samt frekar jafn og spennandi, kannski ekki áferðarfallegast boltinn, en mikil barátta. Keflavík var með undirtökin og leiddi 13-17 eftir flautukörfu. Daniela með 9 stig.
Næsti leikhluti var mjög keimlikur þeim fyrsta. Keflavík með forystuna og Valskonur að reyna að saxa á þann mun. Til að byrja með juku Keflavíkurkonur muninn en þegar leið á leikhlutann þá fór þetta að detta með Valskonum og þegar ein mínúta var eftir jöfnuðu þær. Ingunn setti síðan niður fallega þriggja stiga körfu og kom Keflavík í forystu í hálfleikinn, 31-34.
Í seinni hálfleik juku bæði liðin hraðann, liðin skoruðu til skiptis og leikurinn í járnum. Keflavík þó með forystuna. Á tíma virtist þessi leikur vera að leysast upp í einhverja vitlausu, sama hvað dómarinn dæmdi eða dæmdi ekki, bæði lið óánægð. Keflavík fékk dæmt á sig tæknivíti og mikill hiti í báðum liðum. Enda gríðarlega mikið í húfi. Valskonur náðu að jafna með tveimur vítaskotum hjá Simone, 54-54 og hörkuleikhluti í vændum.
Í fjórða leikhluta hélt baráttan áfram, Embla og Daniela fengu fljótlega sínar fjórðu villu. Skömmu síðar fékk Ásta Júlía sínu fjórðu villu. Embla fór útaf en Daniela og Ásta voru áfram inn á. Þess er vert að minnast að stemmingin á pöllunum var algjörlega til fyrirmyndar, bæði lið. Þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum komust Valskonur yfir í fyrsta skiptið í leiknum. Síðustu mínúturnar voru æsispennandi í dúndrandi stemmingu. Þegar ein mínúta var eftir fór Ásta útaf með fimm villur. Þegar 34 sekúndur eru eftir skorar Karina þriggja stiga körfu og kemur Keflavík í eins stigs forystu. En Embla neglir niður þristi eftir leikhlé. Keflavík náði ekki skoti í lokasóknni, Hildur með geggjaða blokk. Embla síðan kláraði þetta á vítalínunni, ísköld alveg.
VALSKONUR ÍSLANDSMEISTARAR 2023 – Til hamingju!!!!
Hjá Val voru Ásta Júlía með 14 stig og 11 fráköst, Hildur Björg með 12 stig og 12 fráköst, Kiana með 13 stig og 8 fráköst. Hjá Keflavík var Daniela langbest með 21 stig og 14 fráköst.
Myndasafn (væntanlegt)