spot_img
HomeFréttirUmfjöllun & viðtöl – Breiðablik Íslandsmeistari í unglingaflokki drengja

Umfjöllun & viðtöl – Breiðablik Íslandsmeistari í unglingaflokki drengja

Í lokaleik dagsins og helgarinnar á þessari „final-four“ helgi, mættust Njarðvík og Breiðablik í úrslitaleik unglingaflokks karla.  Við fjölluðum um undanúrslitaleikina á föstudagskvöldið en þar fór Njarðvík tiltölulega létt með Fjölni og Breiðablik vann KR í hörku leik.  Njarðvíkingar höfðu fram að þessum leik, ekki tapað í eitt skipti í allan vetur!  Þeir urðu bikarmeistarar, fóru þá m.a. í gegnum Breiðablik en hafa ber í hug að Blikarnir voru í raun í fyrsta skipti þessa helgi að stilla upp sínu besta liði en lykilmenn hefur vantað í vetur.  Því mátti búast við hörku leik!

Blikarnir voru sneggri upp úr blokkunum og spiluðu góða vörn og leiddu eftir 1. fjórðung, 18-13.  13 skoruð stig Njarðvíkinga segja sína sögu.  

Jeb og Einar Árni fóru greinilega yfir hlutina með sínum mönnum í leikhléinu og Njarðvíkingar settu 7-2 áhlaup á svið og leikar jafnir. Baráttan hélst svona út fyrri hálfleikinn og varla hægt að greina mun á milli liðanna, tvö hörku lið hér á ferðinni!  Staðan 32-34 fyrir Breiðablik og leikmenn, þjálfarar, blaðamenn og áhorfendur héldu í hálfleiks-kaffibollann, já eða öl, te….  eitthvað…..

Skv. framlagi voru Njarðvíkingarnir Veigar Páll Alexandersson og Gunnlaugur Sveinn Hafsteinsson (10 og 8) að leggja mest í púkkið og kannski að það komi einhverjum á óvart þar sem Domions-leikmennirnir Jón Arnór og Snjólfur er með Njarðvík, kannski ágætt fyrir ljónin að eiga þá inni.  Hjá Blikunum voru 2 af 3-þrennunni, Sveinbjörn og Hilmar (8 og 13) en Arnór hafði sig minna í frammi.  Ljóst að barist yrði til síðasta….

Grænklæddir Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn betur á móti appelsínugulum ljónum en vörn þeirra var betri og áttu Njarðvíkingar í vandræðum með að komast að körfunni og eftir 4 mínútur var munurinn kominn í 10 stig, 39-49!  Topplið Njarðvíkur ætlaði sér hins vegar ekki að láta þetta verða fyrsta og EINA tap tímabilsins og gáfu því allt í!  Settu þrist en Blikarnir svöruðu strax og Árni Elmar Hrafnsson setti 2 þrista með skömmu millibili og munurinn fór upp í 12 stig og Jeb tók leikhlé.  Það skilaði takmörkuðu og nokkrir þristar fylgdu í kjölfarið hjá Blikum og virtust þeir ætla stynga af en Njarðvíkingar neituðu hreinlega að gefast upp og náðu að minnka muninn með eigin þristum og munurinn datt niður fyrir sálfræðiþröskuldinn 10 og því von á rafmögnuðum lokafjórðungi!

Liðin héldust hönd í hönd til að byrja með í lokafjórðungi keppnistímabilsins og ljóst að það myndi ekki duga njarðvísku ljónunum svo Jeb tók leikhlé þegar 2 ½ mín var liðin, hann þurfti einfaldlega að reyna kokka upp eitthvað nýtt til að snúa taflinu við.  Einhverju skilaði ræðan því Blikarnir lentu í mestu vandræðum með að skora og þurftu stundum að taka erfitt skot við lok skotklukku, Njarðvíkingar gengu á lagið og áður en varði var munurinn kominn í 3 stig 66-69, þessi íþrótt….!  Blikarnir tóku leikhlé, náðu aftur áttum og munurinn fór upp í 6 stig, tæpar 3 mínútur eftir og allt gat hreinlega gerst!  Njarðvík náði sterku „steal“ og Snjólfur minnkaði muninn í 2 stig og fannst undirrituðum Sveinbjörn sleppa vel að ekki var dæmt „and-1“!  Arnór Hermanns sem hafði haft sig lítið í frammi í fyrri hálfleik, steig vel upp í seinni og setti gífurlega flottan og mikilvægan „floater“ og kom muninum upp í 4 stig, 76-80, Njarðvík klikkaði og Blikarnir hársbreidd frá því að ísa leikinn í næstu sókn en boltinn snerist á hringnum og Blikarnir brutu í frákastinu en ekki kominn skotréttur og Jeb tók sitt loka leikhlé, 18,22 sekúndur eftir og ljóst að hann þyrfti að draga kanínu upp úr hatti sínum!  Engin birtist kanínan og FYRSTA OG EINA TAP NJARÐVÍKUR þetta tímabilið staðreynd!  Lokatölur 76-81 og Breiðablik Íslandsmeistari!

MVP Blika var sigurvegari dagsins, Sveinbjörn Jóhannesson en hann þjálfaði lið 10. flokks karla í dag!  Ágætis dagsverk hjá pilti sem tók þrennuna; þjálfari 10. flokks, MVP og Íslandsmeistari í unglingaflokki!  Framlag hans í leiknum var 23 (14 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar og 2 varin skot), frábær leikur hjá sigurvegara dagsins!  Aðrir sem skiluðu góðu framlagi voru Hilmar Péturs með 21 (20 stig og 6 fráköst), Árni Elmar Hrafns með 16 (19 stig (5/12 í þristum) og 5 fráköst) og Arnór Hermanns sem steig upp í seinni hálfleik, með 15 í framlag (19 stig og 5 fráköst).

Hjá Njarðvíkingum vantaði herslumuninn og það er sorgleg staðreynd fyrir þá m.v. að þetta var eini leikurinn sem þeir töpuðu á tímabilinu.  Þeir mættu einfaldlega ofjörlum sínum.  Þeirra fremstir skv. framlagsjöfnunni voru Adam Eiður Ásgeirsson fyrirliði með 17 (17 stig og 4 fráköst), Gunnlaugur Sveinn Hafsteinsson og Snjólfur Marel Stefánsson 14 í framlag (G: 10 stig og 8 fráköst, S: 15 stig og 8 fráköst) og þeir Arnór Sveinsson og Veigar Páll Alexandersson með 10 (A: 17 stig og 5 fráköst, V:7 stig, 3 fráköst og 3 stolnir)  Njarðvíkingar hengja vonandi haus ekki of lengi, geta borið höfuð hátt eftir frábært tímabil þar sem einungis 1 tap er niðurstaðan – en það tap kom á ansi leiðinlegum tíma fyrir þá….

Við óskum Blikum til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn!

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Sigurbjörn Daði

Fréttir
- Auglýsing -