spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Vestfirðir ennþá vígi, Vestri sigrar Breiðablik

Umfjöllun: Vestfirðir ennþá vígi, Vestri sigrar Breiðablik

Vestri tók á móti Breiðablik í gær í seinasta heimaleik Vestfirðinga á þessu ári. Blikar höfðu ekki erindi sem erfiði og Vestramenn sigldu öruggum sigri í höfn, 96-80.
 

Breiðablik heimsótti Ísafjörð og lið Vestra í gær heldur fáliðaðari en vanalega. Þá vantaði báða byrjunarliðsmennina sína í teignum, þá Sveinbjörn Jóhannesson og Snorra Vignisson, og ljóst var að miðherji Vestra, Nemanja Knezevic, ætti eftir að valda vandræðum fyrir gestina. Í upphafi voru Blikarnir þó sterkari og skoruðu 10 stig í röð áður en Yngvi Páll Gunnlaugsson, þjálfari Vestra, tók leikhlé. Þá fóru heimamenn aðeins af stað og náðu að koma stöðunni í 15-18 áður en Lárus Jónsson, þjálfari Breiðabliks, tók sitt fyrsta leikhlé. Blikar tóku sig þá saman í andlitinu og luku fyrsta leikhlutanum með 8 stigum í röð, 15-26.

Vestri náðu aðeins að hitta betur í öðrum leikhluta og komu stöðunni í 28-36 þegar Lárus þjálfari tók annað leikhléið sitt. Það hefur ekki skilað nægilega miklu þar sem að Vestri hélt áfram að rúlla og luku fyrri hálfleik með stæl. Staðan í hálfleik 45-39 fyrir heimamönnum. Blikar lentu fljott í villuvandræðum í fyrri hálfleik og báðir byrjunarliðsframherjar þeirra, Halldór Halldórsson og Leifur Steinn Árnason, voru með 3 villur í hálfleik.

Í seinni hálfleik héldu Vestri áfram að skora og breikkuðu bilið milli liðanna við mikinn fögnuð áhorfenda í stúkunni. Breiðablik náði ekki að leysa vörn heimamanna nægilega vel og Blikar virtust missa hug í þriðja leikhlutanum. Leikurinn varð ekki sérlega spennandi eftir hann og minni spámenn fengu að klára bróðurpartinn af seinasta fjórðungnum. Bekkur Blika var aðeins sterkari en Vestramanna og þeir náðu að laga muninn úr 27 stigum í 16 á lokametrunum, lokastaðan því 96-80 þegar flautan gall.
 

Þáttaskil

Þegar 15 mínútur voru liðnar af leiknum fór Vestri aðeins að braggast og hitta og Lárus Jónsson, þjálfari Breiðabliks, tók annað leikhléið sitt í fyrri hálfleik. Vestramenn héldu hins vegar áfram og skoruðu seinustu 5 mínutur fyrri hálfleiks 17 stig gegn 3 hjá Blikum. Breiðablik gat ekki grafið sig upp úr þeirri holu og Vestri unnu örugglega 96-80.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Þrátt fyrir að Vestri hafi byrjað verr í skotnýtingu (hittu einungis 3 þrista í fyrri hálfleik) þá bættu þeir sig í skotum og Breiðablik fóru að hitta verr. Liðin fengu svipuð mörg skot (79 hjá Vestra vs. 74 hjá Breiðablik) en heimamenn nýttu fleiri (37 vs. 29). Þar liggur munurinn.
 

Hetjan

Nemanja Knezevic, erlendur leikmaður Vestra, átti annan öflugan leik og kom mörgum Blikum í villuvandræði með því að vera fastur fyrir í teignum. Hann lauk leik með 26 stig, 25 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Hann var framlagshæstur með 51 framlagsstig.
 

Lukkuparket?

Þess má til gamans geta að þessi sigurleikur Vestramanna var sá seinasti á parketinu í Torfnesinu, en hafist var handa við að rífa parketið upp strax næsta dag. Vinnumenn munu vinnum hörðum höndum til að Vestri geti tekið á móti Skagamönnum 20. janúar á næsta ári. Þangað til eru þeir að keppa útileiki og æfa í öðrum íþróttahúsum.
 

Kjarninn

Bæði lið hafa þá unnið alla heimaleiki sína. Vestri hefur hins vegar tapað öllum útileikjum sínum á meðan að Breiðablik hefur unnið þrjá og tapað þremur. Vestri verður að taka einn og einn útileik til að blanda sér í toppbaráttuna í 1. deildinni í ár. Þetta verður sérstaklega mikilvægt nú þegar þeir fá ekki heimaleik fyrr en í lok janúar. Blikar eru ennþá að eltast við Skallagrím og verða að vinna toppliðin úti ef að þeir vilja fara beint upp í úrvalsdeild.
 

Tölfræði leiksins
Viðtöl eftir leik:

 

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -