spot_img
HomeBikarkeppniUmfjöllun: Valur í úrslit eftir sigur á baráttuglöðum Snæfellskonum

Umfjöllun: Valur í úrslit eftir sigur á baráttuglöðum Snæfellskonum

Valur lagði Snæfell að velli í undanúrslitum Geysisbikars kvenna. Þær munu því mæta Stjörnunni, sem unnu Breiðablik fyrr í kvöld, komandi laugardag í úrslitaleik um titilinn.

Gangur leiks
Snæfell mætti miklu betur til leiks í kvöld. Leiddu með 10 stigum eftir fyrsta leikhluta, 14-24. Sóknarleikur Vals á þessum upphafsmínútum vafasamur í meira lagi, á meðan að allt virtist detta ofaní hjá Snæfell. Undir lok fyrri hálfleiksins kemst Valur svo vel í takt við leikinn, sigra annan leikhlutann með 13 stigum og eru því 3 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 45-42.

Í upphafi seinni hálfleiksins er leikurinn svo jafn og spennandi. Snæfell þó með nauma forystu fyrir lokaleikhlutann, 58-60. Í fjórða setur Valur svo í lás varnarlega, leyfa aðeins 12 stig í leikhlutanum og skotin þeirra fara að detta, skora 25. Snæfell reyndu hvað þær gátu til að komast inn í leikinn aftur, en allt kom fyrir ekki. Valur sigraði leikinn að lokum með 11 stigum, 83-71.

Tölfræðin lýgur ekki
Snæfell fékk 20 villur dæmdar á sig í leiknum á móti aðeins 14 hjá Val. Þessar villur voru þeim nokkuð dýrkeyptar. Þar sem að bæði fór að gæta þess að byrjunarliðsmenn þeirra í villuvandræðum þurftu að passa sig þegar leið á leikinn, sem og þurftu þær beinlínis að setjast á bekkinn. Einnig gaf þetta Val heil 24 vítaskot í leiknum á móti aðeins 9 þeirra. Vítanýting Vals í leiknum til fyrirmyndar, setja 21 af þessum 24 skotum niður.

Hetjan
Helena Sverrisdóttir var langbesti leikmaður vallarins í kvöld. Það fór þó ekki mikið fyrir því. Því hún, líkt og svo oft áður, tók nákvæmlega ekki neitt frá neinum og gerði lið sitt aðeins betra þegar á reyndi. Tölfræði hennar í leiknum samt ekkert slor, 33 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar.

Kjarninn
Snæfell gerði hrikalega vel í 30 mínútur gegn geysisterku liði Vals. Hefðu ekki verið nein undur og stórmerki hefðu þær farið í úrslitaleikinn miðað við fyrstu þrjá leikhlutana. Þó enginn gangi sáttur frá borði eftir að hafa verið sleginn út úr bikar, getur Snæfell þó samt gert það. Í undanúrslitum sjöunda árið í röð og það eina sem skildi þær og heitasta lið landsins að, var einhver 4-6 mínútna slæmur kafli undir lok leiks sem þær leiddu á löngum köflum.

Nýtt nafn
Ljóst er að á laugardaginn verður nýtt nafn ritað á bikarinn. Hvorki Stjarnan né Valur hafa unnið hann áður. Valur hefur í eitt skipti komist í úrslitaleikinn (2013), og þetta er fyrsti úrslitaleikur Stjörnunnar.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -