Annar leikur undanúrslita kvenna fór fram í DHL höllinni í kvöld þar sem KR tók á móti nágrönnum sínum. Fyrsti leikurinn í þessari rimmu fór Val í vil og því spennandi að sjá hvort KR myndi svara fyrir sig.
Leikurinn byrjaði af krafti og var spennandi frá fyrstu mínútu. Augljóst var að KR ætluðu sér ekki að gera neitt auðvelt fyrir Val, þær áttu svör við öllu sem Valur gerði og leiddu í lok 1. leikhlutans. Annar leikhluti einkenndist af baráttu um forystuna þar til undir lok leikhlutans þegar Valur tók 20 – 3 áhlaup, þar af voru 18 stig af þriggja stiga línunni. Staðan í hálfleik því 31 – 48 og útlitið ekki gott fyrir KR-inga eftir endasprett Valskvenna í fyrri hálfleik.
Leikmenn beggja liða komu einbeittir til leiks eftir hálfleik, KR saxaði örlítið á forskot Valsara en þær voru um 10 stigum á eftir Val allan þriðja leikhluta.
Fjórði leikhluti fór hægt af stað, það var lítið skorað, brotið hóflega mikið og fantagóð vörn spiluð. Leikurinn var ennþá hraður þó að lítið breyttist á stigatöflunni. Þreytan var farin að sjást á KR-ingum, þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir, þá tekur Benni leikhlé. Sem er ekki í frásögur færandi fyrir utan það að Benni tekur annað leikhlé um leið og hið fyrra rennur út. Líklegast til þess að hvíla leikmennina sína örlítið, mætti segja að það hafi einmitt verið það sem KR-ingar þurftu. Á næstu þremur mínútum var KR undir stýri, þær tóku 10 – 2 áhlaup (einn þristur, 2 af 4 í vítum, eitt sniðskot og svo karfa góð og villa að auki). KR vann hart að því að koma leiknum í þriggja stiga mun, en um leið mætti segja að það hafi verið of seint. Á síðustu 25 sekúndunum brýtur KR í tvígang til þess að stoppa klukkuna og Valskonur setja niður vítin sín í bæði skiptin, þar að auki náði KR ekki að svara með körfu í hvorugt skiptið og þar með var leikurinn úti.
Ef litið er á tölfræðina er sturlað að sjá hversu jöfn hún er. Munar aðeins tveimur prósentum á heildar skotnýtingu liðanna. Valur er að vísu með betri nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna sem er þeim dýrmæt og taka þær einnig fleiri fráköst sem er líklega ástæða þess að þær vinna leikinn. Hinsvegar er KR með fleiri stig inni í teig, fleiri stig úr hraðaupphlaupi, og einu stigi meira úr ,,second chance” sókn. Valur er samt sem áður duglegri við að refsa eftir að þær stela boltanum og er það eitthvað sem KR þarf að laga hjá sér fyrir næsta leik ef þær ætla sér að lyfta bikarnum í lok tímabilsins, ásamt því að stoppa þriggja skot Valskvenna og taka fleiri fráköst.
Það er auðvelt að segja að Helena Sverris hafi verið hetja Valskvenna, með 52% heildar skotnýtingu, 9/10 í vítum, 12 fráköst, 9 stoðsendingar og 47 í framlag. Svo sem ágætar tölur á slökum sunnudegi. En Valsliðið í heild er þeirra eigin hetja, þær spila mjög vel saman og þekkja hvor aðra vel. Það er erfitt að spila á móti liði sem á fáa veikleika og því erfitt verkefni framundan fyrir KR.
Valur leiðir rimmuna 2 – 0 eftir góðan 7 stiga sigur á KR. Fyrri leikur liðanna vann Valur sannfærandi á heimavelli en að Hlíðarenda mun þriðji leikurinn fara fram fimmtudaginn 11. apríl. Þar hefur KR síðasta tækifærið til þess að halda sér lifandi í þessari úrslitakeppni.
Myndasafn (Guðlaugur Ottesen Karlsson)
Umfjöllun: Regína Ösp Guðmundsdóttir