spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaUmfjöllun: Topplið Fjölnis vann í Síkinu

Umfjöllun: Topplið Fjölnis vann í Síkinu

Fjölnisstelpur gerðu góða ferð norður á Sauðárkrók í kvöld þar sem þær unnu sigur á heimastúlkum í Tindastól 68 – 73 í 1. deild kvenna í körfuknattleik.

Leikurinn byrjaði jafnt en Fjölnisstelpur voru þó alltaf skrefi á undan í fyrsta leikhluta og þær náðu 11 stiga forystu um tíma með því að setja 4 þrista á skömmum tíma og leiddu 20-10 að honum loknum.

Heimastelpur í Tindastól komu til baka með mikilli baráttu og náðu að komast yfir með þrist frá Evu Rún um miðjan 2. leikhluta, 25-24. Leikurinn var svo í járnum fram að hálfleik en Fjölnir leiddi í leikhléinu 36-38. Þriðji leikhluti var svo í járnum lengst af en gestirnir náðu góðum spretti í lok leikhlutans og leiddu með 12 stigum að honum loknum 49-61 eftir sóknarfrákast og körfu frá Söru Diljá.

Þennan mun náðu heimastúlkur aldrei að naga almennilega niður þrátt fyrir mikla baráttu og augljósa þreytu hjá báðum liðum í lokaleikhlutanum. Lokatölur 68-73 fyrir gestina sem halda áfram efsta sæti deildarinnar og hafa unnið 12 af 14 leikjum sínum.

Fjölnisstúlkur höfðu mikla yfirburði í fráköstum í leiknum, tóku 65 fráköst gegn 46 hjá heimastúlkum. Anna Ingunn Svansdóttir fór fyrir gestunum í stigaskori í kvöld með 23 stig en Erla Sif reif niður 20 fráköst og þar af 13 sóknarfráköst og munar aldeilis um minna. Hjá heimastúlkum var Tess Williams með 27 stig og 9 fráköst, Marín Lind með 14 stig og Eva Rún með 7 stig og 10 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -