Heimastelpur í Tindastól byrjuðu leikinn af miklum krafti og gerðu nánast út um leikinn í fyrsta fjórðung, náðu 19-2 forystu þegar um 2 mínútur voru eftir af leikhlutanum. Hamar náði aðeins að laga stöðuna og náðu að minnka muninn í 10 stig þegar hittni Tindastólstúlkna datt niður um tíma. Staðan í hálfleik 35-24 fyrir Tindastól.
Tessondra Williams og Marín Lind Ágústsdóttir duttu í gírinn aftur í upphafi þriðja leikhluta og þegar 4 mínútur voru liðnar var forystan komin í 21 stig, 50-29 og heimastelpur litu ekki til baka eftir það. Eva Rún Dagsdóttir tók við í fjórða leikhluta og skoraði 9 stig í röð en hún og Marín leika einnig með 10. flokki Tindastóls. Efnilegt lið í uppbyggingu á Króknum og Marín Lind og Eva Rún voru ánægðir í viðtali eftir leik og sögðu frábært að meistaraflokkur kvenna væri aftur kominn af stað á Króknum eftir nokkuð hlé.
Lokatölur urðu 81-49, Tess skoraði 22 stig fyrir heimakonur og Eva Rún kom skammt á eftir með 21 stig og reif niður 11 fráköst að auki. Það var ekki að sjá á henni að hún hafði glímt við pest alla vikuna. Marín bætti svo 18 stigum við og Tindastólsliðið spilaði vel sem heild. Hjá Hamri var Álfhildur E. Þorsteinsdóttir atkvæðamest með 11 stig og 10 fráköst og Una Bóel setti einnig 11 stig en hún leikur einnig með 10. flokki.
Umfjöllun, myndir viðtöl / Hjalti Árna
Eva Rún og Marín Lind eftir leik: