spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Tindastóll hafði betur í fallsætisslagnum

Umfjöllun: Tindastóll hafði betur í fallsætisslagnum

Tindastóll hafði betur gegn Haukum í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði í gærkvöld, 74-80, þegar að liðin mættust í IE-deildinni. Fyrir leikinn var ljóst að þessi leikur yrði báðum liðum afar mikilvægur í ljósi stöðu þeirra í deildinni en bæði lið höfðu fyrir leikinn aðeins unnið einn sigur hvort og voru í 10.-11. sæti.
 
Emil Barja opnaði leikinn með þriggja stiga körfu fyrir Hauka og liðin skiptust á að skora næstu körfur. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt og að þetta yrði jafnt fram á loka mínútur. Sauðkræklingar höfðu þó örlítið meira frumkvæði í fyrsta leikhluta og enduðu hann með fjögra stiga mun 18-22.
 
Það var mikil stemning í liði Tindastóls í upphafi annars leikhluta og voru þeir mjög snemma í leikhlutanum komnir 10 stigum yfir, 19-29. Ljóst var að Haukar þyrftu að herða sinn leik ef þeir ætluðu ekki að láta vaða yfir sig á heimavelli og þeir gerðu það. Haukapjakkurinn Haukur Óskarsson hrökk í gang og skoraði sjö stig í röð fyrir rauða sem og að stela boltum í vörninni sem að gáfu auðveldar körfur. Haukar jöfnuðu leikinn 33-33 og voru á miklu skriði en þrátt fyrir það náðu þeir ekki að pota sér fram úr liði Stólanna og leiddu þeir eftir hálfleikinn með fimm stigum 36-41.
 
Seinni hálfleikur var gjörsamlega stál í stál. Haukar komust yfir um miðjan þriðja leikhluta og eftir það skiptust liðin á að vera með forystuna alveg fram á loka mínútur leiksins. Þriðji leikhluti flaut mjúklega í gegn þar sem forustan varð aldrei meira en fjögur stig á lið og biðu áhorfendur með eftirvæntingu eftir loka leikhlutanum. Stólarnir enduðu leikhlutann betur og leiddu með þremur stigum þegar að sá fjórði hófst.
 
Haukaliðið virtist finna taktinn í upphafi þess fjórða spilaði glimrandi fínan bolta. Þeir komust yfir 63-60 þegar að Óskar Magnússon brýtur á Maurice Miller í þriggja stiga skoti og í kjölfarið fýkur í hann. Annar dómari leiksins sá ekki ástæðu til annars en að dæma á hann tæknivillu og Tindastóll því komnir með fimm vítaskot og boltann aftur. Miller nýtti þrjú af fimm skotum sínum og í sókninni sem að á eftir kom fékk Haukamaðurinn Christopher Smith sína fimmtu villu og þurfti að yfirgefa völlinn. Smith var að vísu langt frá sínu besta í sóknaleik Hauka en lét mikið fyrir sér fara í vörinni og endaði leikinn með 6 varin skot.
 
Munurinn á liðunum það sem eftir lifði leiks voru aðeins eitt til tvö stig og í stöðunni 74-76 fær Jovanni Shuler dæmdan á sig ruðning þegar að 18 sekúndur voru eftir og af viðbrögðum flestra í húsinu var hann í vafasamari kantinum. Þetta gerði útslagið fyrir Haukaliðið sem reyndi hvað þeir gátu að stela sigri en Stólarnir kláruðu leikinn á vítalínunni, 74-80.
 
Maurice Miller var atkvæðamestur Tindastóls með 26 stig og 11 fráköst og auk þess stal hann 5 boltum. Trey Hampton kom honum næstur með 25 stig og 8 fráköst.
 
Hjá Haukum bar Jovanni Shuler af með 28 stig og 7 fráköst og þeir Emil Barja og Haukur Óskarsson voru með 11 stig hvor.
Mynd: Tray Hampton var öflugur í liði Tindastóls í gær[email protected]
 
Fréttir
- Auglýsing -